Stóra upplestrarkeppnin

img_2249

Í dag var upplestrarhátíð Þelamerkurskóla og þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar keppnin var tíu ára gömul skrifaði ég grein í Morgunblaðið um keppnina. Allt í henni á enn við þótt liðin séu ellefu ár síðan.

 

Posted in skólastjórnun | Tagged , | Leave a comment

Foreldrafundir

Fimmti kafli grunnskólalaga fjallar um hlutverk foreldra í skólagöngu barna sinna. Þar eru tíunduð réttindi og skyldur bæði foreldra og skóla um þetta samstarf. Í kaflanum segir að foreldrar:

 • skulu gæta hagsmuna barna sinna,
 • að þeir eigi rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna,
 • þeim sé skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem eru nauðsynlegar fyrir skólastarfið og velferð barnsins
 • skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum
 • skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt

Sjöundi kafli aðalnámskrár hnykkir svo á skyldum skólans í samstarfi heimila og skóla því þar segir að forsenda þess að foreldrar geti axlað þessar skyldur sé virk hlutdeild þeirra og þátttaka í námi barnanna.

adalsnamskra-grunnskola-3-utg-2016-pdf

Til að virkja hlutdeild og þátttöku foreldra hafa skólar um nokkuð margar leiðir að velja og má þar nefna heimanám, tölvupósta, vikupósta, samtalsdaga, opin hús, kynningar að ógleymdum foreldrafundum og því að skólar standa foreldrum alltaf opnir.

Reglulega heyri ég  umræðu um það meðal skólafólks að það þýði ekkert lengur að boða til foreldrafunda, það sé ekki fyrirhafnarinnar virði því það mæti svo fáir og þess vegna þurfi að finna aðrar leiðir til að koma upplýsingum til foreldra og koma á samtali um skólastarfið. Það er mat mitt að hvert af því sem nefnt er hér að ofan hafi hvert sinn tilgang og dugi betur en annað til að þjóna þeim tilgangi og þess vegna megi foreldrafundir ekki leggjast af, heldur megi hugsa þá upp á nýtt.

Skoli og skolaforeldrar cover.aiVið skipulag á foreldrafundum og samtölum hef ég farið eftir ráðleggingum frá Ingibörgu Auðunsdótur sérfræðingi hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Nönnu Kristínu Christiansen verkefnastjóra á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Nanna hefur skrifað bókina Skóli og skólaforeldrar, ný sýn á samstarfið um nemandann. Í þá bók hef ég sótt hagnýtar leiðbeiningar um foreldrafundi eins og fyrirkomulag umræðna. Nanna leggur áherslu á að dagskrá og hópastarf sé markvisst og skilvirkt svo foreldrum finnist tíma þeirra vel varið og að þeir finni sannarlega að þeir geti lagt eitthvað af mörkum til umræðunnar.

Ingibjörg Auðunsdóttir hefur kennt mér að það þarf að setja dagskrá fundanna þannig upp að foreldrar finni að þeir geti treyst skólanum til að vinna að menntun barnanna og lausn þeirra mála sem upp koma. Kynningar skólanna í slíkum fundum þurfa því að innihalda lýsingu á viðfangsefni fundarins og ef um vanda er að ræða þarf að lýsa vandanum og greina vandlega frá stöðunni og því á hverju sú greining er byggð. Ingibjörg leggur áherslu á að skólinn segi líka frá því sem hann hefur þegar gert til að leysa vandann og einnig hvað skólinn hyggst gera í framhaldinu. Að lokum þurfa spurningar hópastarfsins í framhaldi af kynningu skólans að bjóða upp á lausnamiðaðar umræður þar sem reiknað er með því að heimili og skóli vinni saman að lausninni.

Um daginn boðaði Þelamerkurskóli foreldra til fundar í skólanum til að gefa þeim upplýsingar um stöðu skólans eftir að hafa lagt fyrir Lesfimipróf Menntamálastofnunar. Markmið fundarins var einnig að fá foreldra til liðs við skólann í lestrarnámi barnanna. Við skipulag fundarins höfðum við ráðleggingar þeirra Ingibjargar og Nönnu til hliðsjónar.

Boðunin

 1. Fundurinn var fyrst boðaður á Dagskrá skólans en hún barst foreldrum 14 dögum fyrir fundinn.
 2. Tæpri viku fyrir fundinn fengu allir foreldrar tölvupóst með áminningu um fundinn og sagt frá því að von væri á tölvupósti með nákvæmri dagskrá. Foreldarar voru hvattir til að taka kvöldið frá, því reiknað væri með að allir nemendur ættu fulltrúa á fundinum.
 3. Fimm dögum fyrir fundinn var foreldrum sendur tölvupóstur með dagskrá og beiðni um skráningu á fundinn. Jafnframt var sagt frá því að daginn fyrir fundinn yrði hringt  í þá foreldra sem þá hefðu ekki náð að skrá sig á fundinn.
 4. Daginn fyrir fundinn var hringt á þau heimili sem ekki höfðu skráð sig á fundinn. Skólastjórnendur hringdu.
 5. Þremur tímum fyrir fundinn fengu allir foreldrar skólans sms-skilaboð um að kökurnar sem ætti að bjóða uppá á fundinum væru tilbúnar. Skólastjórnendur sendur sms-ið.

Á fundinn mættu 93% foreldra og allir brosandi eftir að hafa fengið “köku-sms”.

Dagskráin

Allir foreldrar sem mættu á fundinn fengu miða með númeri sem sagði til um það í hvaða umræðuhópi þeir yrðu seinna á fundinum. Þá fór enginn fundartími til spillis við að skipta í hópa.

 1. Kynnig á stöðunni og hvernig hún var metin. Skólastjóri kynnti og kennarar sögðu hvað þeir ætluðu að gera í framhaldinu.
 2. Fræðsluerindi um málefni kvöldsins frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.
 3. Kaffi og kökur.
 4. Umræðuhópar þar sem ræddar voru fjórar spurningar. Hver spurning var sett á stórt spjald og fékk hver spurning tvö spjöld. Hverri spurningu var komið fyrir í einni stofu og færðu hóparnir sig á milli stofa til að ræða spurningarnar.
 5. Hver hópur (tveir og tveir saman því hver spurning var með tvö spjöld) kynnti svo það sem stóð á spjaldinu sem var á síðustu stöðunni sem þeir voru á.
 6. Fundi slitið á hárréttum tíma.

Framhaldið

Í framhaldinu verður mikilvægt að foreldrar finni að mæting þeirra og framlag hafi skipt máli. Þess vegna sendi skólinn tölvupóst til allra foreldra skólans daginn eftir fundinn. Í þeim tölvupósti  var þakkað fyrir mætinguna. Einnig var í bréfinu hlekkur á frétt af fundinum og þar voru glærurnar sem farið var yfir á fundinum og einnig samantekt úr umræðum hópanna.

Á fundinum var því lofað að til yrði heildstæð læsisáætlun í skólanum sem tæki einnig mið af umræðum og fræðslu fundarins. Til að slíta ekki þráðinn sem tókst að spinna þetta kvöld er mikivægt að áætlunin verði til sem fyrst og send á hvert heimili og að reglulega fram til vors verði foreldrum sagðar fréttir af framvindu vinnunnar.

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , | Leave a comment

Elska enn QR kóða og líka Google

Á menntabúðum #Eymenntar í Brekkuskóla um daginn var Stella deildarstjóri í Brekkuskóla með menntabúð þar sem hún sýndi hvernig hún býr til hljóðskrár með textum úr könnunum og lesskilningi þannig að nemendur geti unnið sjálfstætt að þessum verkefnum. Hún sagðist vista skrárnar á Sound Cloud og dreifði hlekknum að skránum til nemenda með Qr-kóðum. Ég komst því miður ekki á menntabúðina hennar því ég var sjálf með eina á sama tíma svo ég veit ekki almennilega hvernig hún gerir þetta. En hugmyndin var komin á sinn stað í kollinum og ég vissi að hún kæmi einhvern tímann að góðum notum. Þannig eru nefnilega menntabúðir!

Um þessar mundir svara nemendur könnunum frá Rannsókn og greiningu. Nemendur 5. og 6. bekkjar svara 50 spurninga lista á 18 blaðsíðum. Nokkrir í okkar skóla ráða ekki fyllilega við að lesa svo mikinn texta á þeim tíma sem gefinn er til verksins. Þá mundi ég eftir hugmyndinni hennar Stellu. Þar sem ég hafði ekki hlustað á hana varð ég að finna mér leið til að koma þessari góðu hugmynd í framkvæmd.

audiomemoÉg hef ekki mikla reynslu af hljóðupptökum eða upplestri svo eina ferðina enn var það aðferðin “að fikra sig áfram”. Ég leitaði á netinu að smáforritum fyrir hljóðupptökur og rakst á smáforrit sem heitir AudioMemos og virtist vera frítt. Það er auðvelt að taka upp með því en ég fann fljótlega út að hljóðupptökum úr því er aðeins hægt að dreifa með tölvupósti. En ef ég keypti mér það fyrir 0.99$ þá gat ég dreift því á nokkra vegu, m.a. komið þeim fyrir á Google Drive.
Það er einfalt að læra á forritið, það segir sig nánast sjálft hvernig maður byrjar upptöku, hvernig hún er stöðvuð eða lokið og hvernig henni er svo dreift úr Ipadinum. Þegar ég hafði fundið út úr því þurfti ég bara að finna mér hljóðlátan stað og byrja upplesturinn. Ég las um það bil eina opnu í einu og bjó því til hljóðskrá úr hverri opnu. Úr þessari 18 blaðsíðna könnun urðu átta hljóðskrár. Þær setti ég allar í eina möppu á Google Drive og nefndi þannig að þær raðast þar í rétta röð svo það er auðvelt fyrir nemendur að finna út hvaða blaðsíður hver þeirra inniheldur.

img_2076

Í hljóðveri. Að þessu sinni var kennarastofan hljóðlátasta rýmið.

Til að auðvelda nemendum að nálgast möppuna bjó ég til Qr kóða með slóðinni inn á möppuna. Og þar sem ég hafði nýlega rekist á það á Twitter hvernig auðvelt er að gera Qr kóða fyrir Google slóðir um leið og maður styttir þær á Google URL Shortener notaði ég auðvitað þá aðferð.

Þegar því var lokið prentaði ég út Qr kóðana og prófaði hvort allt virkaði, sem það gerði. Þá var ekkert annað eftir að en fjölfalda Qr kóðana fyrir nemendur og dreifa þeim með könnunum, heyrnatólum og Ipödum. Þannig geta nemendur verið sjálfbjarga þegar þeir svara könnuninni, þökk sé Ipödum, Qr kóðum, Google og upptökuappi sem kostar 100 kall. Svo er bara eftir að sjá hvernig óæfði upplesturinn virkar.

chart

Upplesturinn óæfði sem vonandi dugar nemendum á morgun

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , , , , | 1 Comment

Nýja bananabrauðið

mjolÍ jólaleyfinu fór ég í verslunina Kost í Kópavogi til að verða mér úti um glútenlaust bökunarmjöl. Ég hafði séð uppskrift að brauði hjá Guðrúnu Bergmann þar sem það mjöl var notað. Mér lék forvitni á að vita hvernig þetta virkaði. Ég keypti m.a. All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill og sá að í hillunum var til margt sem ég hafði ekki heyrt um áður og myndi vilja kynna mér betur.

Þegar heim var komið leitaði ég á netinu að nothæfum uppskriftum þar sem hægt væri að nota mjölið. Þá komst ég að því að Bob´s Red Mill heldur úti uppskriftavef. Þar fann ég uppskriftir að glútenlausu bananabrauði en í þeim uppskriftum voru líka súkkulaði eða sykur. Fram til þessa hefur mér þótt það óþarfi í bananabrauðum.

Eftir hlaupatúrinn í gær var tilvalið að baka sér bananabrauð og þess vegna dró ég fram bæði uppskriftina hans Bob´s og mína eigin og hrærði í fyrsta glútenlausa bananabrauðið á Mörkinni. Afraksturinn varð svo góður að ég veit að þetta brauð verður bakað oftar.

img_2048

Það var girnilegt bananabrauðið og líktist því sem áður hafði verið bakað og var með glúteni.

3 þroskaðir bananar stappaðir

2 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk kanill

2 bollar (kúfaðir) All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill

2 tsk Xanthan Gum frá Now

salt milli fingra

1 dl sólblómafræ

2 egg (þessi voru smá því þau voru úr hænum skólans, þær eru enn að æfa sig í varpinu)

2-3 msk góð matarolía eða kókosolía

1 lúka glútenlaust haframjöl og örlítið til að strá yfir brauðið áður en það fer í ofninn (það fæst nú á tilboði í Nettó)

Bananarnir eru stappaðir og settir í skál og eggjunum er bætt saman við. Því næst er þurrefnunum bætt útí einu af öðru og að lokum er olíunni hrært saman við. Hrært varlega með sleif og sett í brauðform og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45-50 mínútur.

Borið fram með osti, smjöri og sultu eða marmelaði.

Posted in Að láni frá öðrum, Matarstúss | Tagged , , , , , | Leave a comment

Eftir Google Summit I

google-web-hosting

Eitt af því sem ég setti sjálfri mér fyrir að gera eftir námstefnu Ed Tech Team í Reykjavík í janúar var að ljúka við vefsíðu sem ég byrjaði á þegar ég var á námstefnunni. Á vinnustofunni um Google Sites datt mér ekkert frumlegra í hug en að nota vefumhverfi Google til að geyma glósur námstefnunnar. En þar sem umhverfið á vefsíðunni var nýtt fyrir mér þá réð ég ekki við að glósa og fikra mig áfram í nýju umhverfi svo ég safnaði saman glósum uppá gamla mátann og tísti á meðan á ráðstefnunni stóð. Nú þegar heim er komið og ég hef lokið við að gera samantektir námstefnunnar þá var hægðarleikur að ljúka við vefsíðuna; ég gat bara flutt textann á milli síðnanna og birt svo síðuna.

Ég sé að Google Sites hefur marga kosti í skólastarfi eins og annars staðar. Helsti kosturinn er hve einfalt og notendavænt umhverfið er. Ég sé fyrir mér að nemendur allt niður á yngsta stig geti nýtt sér umhverfið. Það er vegna þess að:

 • það er einfalt og fljótlegt að læra á það
 • það er einfalt að læra á táknin fyrir aðgerðirnar og þau eru aðgengileg og notendavæn
 • það er einfalt að ná yfirsýn yfir verkfæri umhverfisins
 • það er einfalt að efla samvinnu í þessu umhvefi með því að deila síðunni með öðrum innan skólans svo fleiri geti unnið að henni í einu
 • það er einfalt að bæta við síðum og undirsíðum
 • það er einfalt að flytja gögn frá öðrum google verkfærum yfir á síðuna
 • það er einfalt að setja inn texta og hausa
 • það er einfalt að skipta um myndir og textagerðir í hausum síðunnar
 • það er einfalt að setja inn bæði myndir og myndbönd
 • það er einfalt að gera síðuna fallega
 • það er einfalt að birta síðuna, annað hvort innan skólans eða birta hana fleirum

Ég hlakka til að nýta möguleika Google Sites í leik og starfi og líka að sýna öðrum möguleikana, til dæmis á næstu menntabúðum Eymenntar.

Posted in Á ferð og flugi, Starfsþróun | Tagged , , , , | Leave a comment

Veisla í boði Google II

img_2330

Veislan var líka fyrir munn og maga. Alltaf var séð fyrir því að okkur skorti ekki mat.

Ed Tech Team og Advania á Íslandi stóðu fyrir námstefnu helgina 14.-15. janúar um notkun Google verkfæra í skólastarfi. Ég var svo heppin að vera einn af námstefnugestum ásamt tæplega 100 öðrum gestum þar af fjórum öðrum úr Þelamerkurskóla. Í þessari samantekt fer ég yfir það sem ég gerði og lærði á seinni degi námstefnunnar. Í annarri færslu sagði ég frá fyrri deginum.

Sunnudagurinn 15. janúar

Sunnudagurinn byrjaði jafn snemma og laugardagurinn, kl. 7:30 opnaði húsið með morgunverði. Að honum loknum var safnast saman í fyrirlestrarsalnum og þar var tilkynnt að Sylvia Duckworth hefði unnið Demo Slam-ið daginn áður. Það kom mér að vísu ekki á óvart þar sem hún trompaði hina með því að rappa við undirleik teiknimyndagæjanna í Incredibox. Síðan tók við aðalfyrirlestur dagsins og þar á eftir vinnustofur. Deginum lauk með samantekt á allri námstefnunni.

img_2017

Aðalfyrirlesari sunnudagsins var Jennie Magiera. Það er óhætt að segja að henni tókst að hrífa salinn með sér í lifandi og einlægum fyrirlestri þar sem hún fléttaði inn reynslu frá eigin skólagöngu og vinnu sem kennari og ráðgjafi. Hún hefur gefið út bókina Courageous Edventures þar sem hún greinir frá hugmyndum sínum og reynslu í innleiðingu upplýsingatækni í skólastarfi. Hún heldur líka úti blogginu Teaching like it´s 2999.

Meginefni fyrirlestrar hennar var að blása námsstefnugestum hugrekki í brjóst svo þeir þori að taka áhættu og breyta til í kennslu sinni með því að taka upplýsingatæknina í sína þjónustu.

Jennie lagði áherslu á að áhættunni geta fylgt mistök. Það sem skiptir máli í ferlinu við að prófa sig áfram er hvað við veljum að gera við reynslu okkar af mistökunum; veljum við að læra af þeim eða eða veljum við að gefast upp? 

Ráðin sem hún gaf námstefnugestum voru eftirfarandi:

 1. Slakið á og skemmtið ykkur í kennslunni. Hún tók sem dæmi stærðfræðikennara sem hafði áhuga á hárgreiðslunni “sítt að aftan”. Hann lagði fyrir nemendur sína alls kyns opin verkefni sem tengdust þessari hárgreiðslu. Í sameiningu fundu kennarinn og nemendur niðurstöður og lausnir að verkefnunum sem engin kennslubók hefði getað tekið á. Jennie sagði, að lykillinn að þessu væri að líta á hvern skóladag sem ævintýri og bjóða nemendum til ævintýris.
 2. Hættið að kenna efni og rembast við að komast yfir sem mest, beinið sjónum ykkar að nemendunum. Jennie benti réttilega á að það eru áhugi og geta nemenda sem eiga að stýra því hvað er tekið fyrir og hvernig það er gert. Þegar nemenedur eru efldir til að hafa áhrif á eigið nám er auðveldara en ella fyrir þá að taka ábyrgð á eigin framförum. Þannig læra þeir að þeir geta gert gagn með því að hafa áhrif á eigið umhverfi og annarra.
 3. Prófið eitthvað sem hræðir ykkur. Um leið og kennarar hafa ákveðið það eru þeir auðvitað að stíga útfyrir eigin vana og þægindaramma og þurfa að finna á eigin skinni hvernig er að læra af eigin mistökum.
 4. Búið til aðstæður og andrúmsloft áhættu. Með þessari ráðleggingu átti Jennie við að fullorðna fólkið í skólanum sýndu frumkvæði og væru fyrirmyndir í að taka áhættu og læra af mistökum sínum.
 5. Ekki bíða með að taka áhættuna! Taktu áhættuna núna, það kemur enginn “betri” tími.

Eins og heiti bókarinnar (Courageous Edventure) hennar Jennie vísar til þá notar hún siglingar sem líkingu til að koma boðskap sínum á framfæri. Hún bað námstefnugesti um að taka mynd af þeim sem þeir vildu vinna með í ævintýrinu sem væri framundan við að koma á upplýsingatækni og breyttum kennsluháttum í skólanum. Þessi hópur væri svo áhöfnin á skipinu sem myndi eftir námstefnuna halda úr höfn og hjálpast að við að taka áhættu og læra af mistökunum.

Að loknu aðalerindi dagsins

Eins og daginn áður var boðið uppá tvær lotur af vinnustofum og samtals voru átta vinnustofur í boði fyrir hádegi. Ég valdi mér að fara á vinnustofu þar sem kynntir voru möguleikar á fræðslu í notkun Google verkfæra í kennslu og hvernig kennarar bera sig að við að taka próf og fá viðurkenningu á færni sinni. Einnig valdi ég að hlusta aftur á Jennie Magiera og í þetta skiptið að tala um hvernig hægt er að valdefla nemendur til þátttöku í innleiðingu nýrra kennsluhátta.

 1. Fyrir hverju brennur þú? (e. What´s your spark!)

Í þessari vinnustofu lærði ég hjá Wendy Gorton hvernig ég get æft mig betur í að nota verkfæri Google og hvar á netinu ég get tekið próf til að kanna færni mína og fá hana viðurkennda til að styðja betur við innleiðingu á verkfærum Google í skólanum mínum.

Wendy var mjög sannfærandi í að koma því á framfæri að allir sem legðu sig fram um að kynnast möguleikum Google gætu komist svo langt að þeir gætu að lokum búið til verkefni við innleiðingu verkfæra Google og fengið aðstoð við að koma því verkefni í kring. Hún hvatti þátttakendur til að huga að þess konar verkefnum þrátt fyrir að þeir væru á fyrstu stigum æfinga sinna.

2. Inneiðingarteymi nemenda (Let the Students Lead the Way: Building a Student Innovation Team)

Í þessari málstofu sýndi Jennie Magiera hvernig hún og fleiri hafa staðið að því að efla nemendur til að verða leiðtogar í innleiðingu á notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Mér fannst aðdáunarvert að heyra hve mikið kennararnir eru tilbúnir að leggja á sig við að finna tíma til að leiðbeina nemendum til að byggja upp starfsemina. Hluti þessarar vinnu fer fram utan skólatíma, í frímínútum eða í matarhléum viðkomandi barna og kennara.

Sem dæmi nefndi hún að ef kennari ætlaði að fara að nota nýtt app eða annað verkfæri, þá hittir hann innleiðingarhópinn sinn í hádegishléinu og fer yfir afmarkaða hluta appsins eða vefsvæðisins svo hver og einn geti sérhæft sig í þeim hluta. Síðan er töflu komið fyrir í stofunni og á henni kemur fram hverjir eru sérfræðingar í hverju svo aðrir nemendur geti auðveldlega fundið út hjá hverjum þeir geti leitað aðstoðar.

Nemendum í innleiðingarteymunum er ætlað að vera, talsmenn, frumkvöðlar, sendiherrar og leiðbeinendur. Innan hvers hlutverks eru svo nokkur verkefni sem skólarnir standa fyrir.

 • Talsmenn (Advocates)
  • Talsmenn skólans og markmiðið er að nemendur finni að þeirra framlag skiptir máli bæði fyrir nærumhverfi og jafnvel veröldina alla.
 • Frumkvöðlar (Authors)
  • Innan þessa hluta hafa verkefni nemenda það markmið að búa eitthvað til sem leysir vanda og hefur góð áhrif á umhverfi þeirra og annarra.
 • Sendiherrar (Ambassadors)
  • Í þessum hluta er nemendum ætlað að segja öðrum frá því sem þeir eru að gera ásamt því að taka á móti tækjum og koma þeim í gang og segja öðrum til í umgengni við tækin.
  • Nemendur halda námstefnur fyrir aðra nemendur og líka fyrir kennara (app-speed date).
 • Leiðbeinendur (Advisors)
  • Nemendur leiðbeina samnemendum í notkun einstakra smáforrita, vefsvæða eða tækja. Viðmið þeirra eru eftirfarandi:
   • Ekki snerta tækin hjá þeim sem þú leiðbeinir. Hafðu hendur fyrir aftan bak.
   • Sýndu hlýlega framkomu.
   • Farðu hægt yfir leiðbeiningarnar. Teldu upp að 3 áður en þú gefur næstu leiðbeiningar.

Ef nemendur vilja komast í innleiðingarteymin þurfa þeir að sækja sérstaklega um það og færa rök fyrir umsókn sinni og fá undirskrift foreldara og meðmæli frá kennurum og samnemendum.

Eftir hádegið 

Eftir hádegisverðinn voru níu vinnustofur í boði í tveimur lotum. Ég valdi að læra betur á Google Calendar og byrja á grunninum og að kynnast fleiri verkfærum Google.

3. Google dagatalið 101 

Í þessari vinnustofu setti Chris Bell okkur fyrir verkefni til að kynna okkur fyrir möguleikum Google dagatalsins. Svo fengu þeir sem luku við verkefnin “aukaverkefni” sem hann kallaði Svarta beltið. Leiðbeiningar sínar gerði hann okkur aðgengilegar.

Ég sá að auðvelt verður að nýta dagatalið til að halda yfirsýn og að dagatalið hefur fleiri möguleika en ég kunni og grunaði að væru til.

4. Spennið beltin! 

fullsizerender

Í þessari málstofu kynnti Michelle Armstrong á mjög líflegan máta uppáhalds smáforritin sín og vefsvæði. Listinn hennar var í stafrófsröð og eitt verkfæri í hverjum bókstaf. Vegna þess að bæði rafmagnið og netsambandið voru ekki sem skyldi tókst henni að ekki að fara yfir allt en bauð okkur að skoða listann sinn og að bæta við glósur þeirra (samglósun = Crowd Sourced Notes) sem áður hafa verið á sams konar fyrirlestri hjá henni.

Michelle var svo fengið það hlutverk að ljúka námstefnunni með því að draga hana saman. Hún hvatti námstefnugesti til að vera hugrakkir í að prófa nýja hluti og að hvetja aðra til að gera það sama. Hún sagði að það hugrekki hefðum við eins og stúlkan á myndbandinu sem hún sýndi okkur.


 

Þegar ég skráði mig á námstefnuna vonaði ég að ég myndi læra meira á verkfæri Google í skólastarfi. Á námstefnunni lærði ég margt nýtt en komst jafnframt að því að möguleikarnir eru óþrjótandi og eiginlega eru okkur lítil takmörk sett, það fer allt eftir því hvert hugmyndaflugið leiðir okkur. Þessi námstefna er bara byrjunin á kynnum mínum á möguleikum Google og ég vona að mér gefist aftur tækifæri til að vera þátttakandi í jafn lærdómsríkri og hvetjandi námstefnu og þessi námstefna var.

Eftir veisluna

Á meðan ég beið eftir að fært yrði norður með fluginu á sunnudagskvöldinu setti ég sjálfri mér fyrir nokkur verkefni sem ég vildi prófa af því sem ég hafði lært á námstefnunni. Nú þegar rúm vika er liðin hef ég þegar nýtt mér ráðleggingar Jennie við að virkja nemendur og viðmið leiðbeinenda hennar. Fleira á svo eftir að líta dagsins ljós.

Posted in Á ferð og flugi, Starfsþróun | Tagged , , , | Leave a comment

Veisla í boði Google I

img_1966

Um síðustu helgi sótti ég ásamt fjórum öðrum úr Þelamerkurskóla námstefnu sem Google Ed Tech Team bauð til í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík og í samstarfi við Advania á Íslandi. Eiginlega var um að ræða tveggja daga veislu þar sem boðið var upp á hagnýtar vinnustofur og fyrirlestra sem bæði voru hvetjandi og lærdómsrík. Í þessari færslu rek ég það sem mér þótti merkilegast fyrri dag námstefnunnar.

Laugardagurinn 14. janúar

Dagurinn byrjaði eldsnemma svo ekki sé meira sagt. Skránig hófst kl. 7:30 og boðið var uppá morgunverð svo þátttakendur gætu fengið sér bita og hitt kunningja og spjallað saman.

Chris Bell opnaði námstefnuna og fór yfir dagskrána. Hann benti gestum á að umgangast hana eins og hún væri hlaðborð og að þeir gættu þess ætla sér ekki að komast yfir allt sem væri í boði. Þá gæti það orðið eins og þegar maður ætlar að borða allt sem býðst á hlaðborði; manni verður ómótt af ofáti.

Á eftir Chris talaði Jaime Casap. Umfjöllunarefni hans var að vekja námstefnugesti til umhugsunar um að samfélag nútímans og ekki síst samfélag framtíðarinnar kallar á annars konar nálgun á námi og kennslu en áður var viðmiðið.

Hann minnti okkur líka á að vinnumarkaðurinn kallar ekki á sömu hæfni og iðnaðarsamfélagið gerði áður fyrr.

Það þýðir að afstaða skólafólks til verkefnanna sem nemendur vinna að í skólunum skiptir máli. Jamie Casap áréttaði að ef skólastarf á að taka tillit til bæði þarfa nemenda og samfélagsins er nauðsynlegt að virkja nemendur og áhuga þeirra og byggja undir samstarf af öllu tagi.

spyrjumbc3b6rninac3b0c3bevc3adhvac3b0a0avandac3beauviljaleysac3adstac3b00ac3beessac3b0spyrjahvac3b0a-default

Jamie Casap heldur úti bloggíðunni Education Evangelist sem er vel þess virði að grúska í til að átta sig á boðskap hans.

Að loknu aðalerindi dagsins

Þegar Jamie Casap hafði lokið máli sínu stóðu níu vinnustofur námstefnugestum til boða í tveimur lotum fram að hádegi. Ég valdi mér að læra á nýja Google Sites hjá Álfhildi Leifsdóttur og Ingva Hrannari Ómarssyni og að kynnast góðum dæmum sem sýndu notkun Google Classroom hjá Jennie Magiera.

 1. Blogg til að hvetja nemendur í ritun

Ingvi Hrannar og Álfhildur kynntu fyrir okkur glóðvolgt verkefni sem þau höfðu unnið með nemendum 8. bekkjar í Árskóla og fengum við sjálf að prófa að vinna eftir því. Það sem mér fannst áhugavert var hvernig verkefnið var lagt inn hjá nemendum, hvernig þeim var leiðbeint við undirbúninginn og hvernig kennararnir fylgdust með framvindunni á verkefninu:

 • Verkefninu var dreift á Google Classroom svæði námshópsins
 • Áður en hafist var handa fór kennararnir í Bad idea factory með nemendum. Þá safnar hópurinn saman slæmum hugmyndum að bloggsíðum á töflun áður en hafist er handa. Á þennan hátt eiga nemendur að geta séð hvaða hugmynd gæti virkað sem góð hugmynd að bloggi.
 • Áður en nemendur stofnuðu bloggið þurftu þeir að skila inn hugtakakorti að blogginu sínu. Þeir höfðu frjálst val um það hvernig hugtakakortið þeirra liti út eða hvernig þeir unnu það. Aðalatriðið var að nemendur hugsuðu sig í gegnum uppbyggingu og innihald bloggsins.
 • Kennararnir sendu nemendum könnun í Google Forms þar sem þeir spurðu nemendur um framvindu verkefnisins. Með þessu móti gágu kennararnir fylgst með og séð hvernig gekk hjá nemendum og stigið inn og aðstoðað nemendur við það sem þurfti.
  • Hvað ertu búinn að gera?
  • Um hvað er bloggið þitt?
  • Hver er slóðin á bloggið?
  • Hvað þarftu hjálp við?

Mér fannst auðvelt að setja mig í spor nemenda og fann hve hvetjandi það er að byrja á því að byggja upp bloggsvæði og til þess að koma ritun minni þar fyrir. Þó vinnustofunni væri lokið langaði mig til að halda áfram og ljúka við verkefnið.

Til að vera okkur fyrirmynd hafði Ingvi Hrannar sett verkefni sín, kynningar og glærur þessarar námstefnu upp í Google Sites. Efnið sem hann fór yfir í þessari vinnustofu er hægt að skoða hérna.

2. Kynning og brot af því besta á Google Classroom 

Í þessari málstofu sýndi Jennie Magiera helstu kosti Google Classroom. Hún fór skref fyrir skref yfir möguleikana og það var auðvelt að fylgja henni vegna þess að hún þekkir vel hvað kennarar geta rekist á og hvað gæti auðveldað þeim lífið. Glærunum sínum deildi hún gjarnan með okkur.

Það var einstaklega gaman að heyra hana lýsa því hvernig hún í fyrstu yfirfærði sín gömlu vinnubrögð við yfirferð vinnubóka yfir á Ipadana. Svo var líka gaman að heyra hana segja frá því hvernig henni tókst að láta tæknina vinna með sér og fyrir nemendur.

Eftir hádegið

Hádegismaturinn var vel úti látinn og góður tími var gefinn til þess að borða og blanda geði við aðra námstefnugesti. Eftir hádegið gátu námstefnugestir valið á milli tíu vinnustofa. Ég valdi mér að prófa að myndaglósa og að læra meira um viðbætur og smáforrit.

3. Sketchnoting 101

img_1979

Sylvia áritar eintakið mitt

Í þessari vinnustofu sýndi Sylvia Duckworth okkur hvernig hægt er að myndaglósa á Ipadana. Hún hefur nýlega gefið út bók um þessa iðju og hafði ég verið í sambandi við hana á heimasíðu hennar og spurt hvort hún myndi ekki hafa bókina með sér á námstefnuna því ég vildi gjarnan eignast einstak. Myndir Sylviu eru skýrar og innihaldsríkar og vekja alltaf athygli mína ef ég rekst einhvers staðar á þær. Ég keypti mér auðvitað eintak og fékk það áritað.

Ég hlóð niður smáforriti sem heitir Procreate og byrjaði að æfa mig. Sylvia sagði okkur að þetta væri það forrit sem að hennar mati kæmi að bestum notum. Það er auðvelt að vinna í því og leiðbeiningar Sylviu voru gagnlegar. En á glærunum hennar voru tillögur að öðrum leiðum til að myndaglósa. Á vinnustofunni var auðvelt að sjá að myndaglósun er ein leið fyrir nemendur til að skrá og miðla þekkingu sinni.

Þessi vinnustofa sannfærði mig um að ég þarf æfingu í myndaglósun og nú þegar er ég komin með hugmynd að minni fyrstu myndaglósu og hlakka til þeirrar stundar þegar ég gef mér tíma til þess.

4. Apps, Extensions and Add-Ones, Oh, My!

Það var ótrúleg upplifun að fylgjast með Michelle Armstrong fara yfir Crome Web Store og segja frá því sem hún þekkir þar og vildi deila með okkur og í glærunum sínum minnti hún okkur líka á að við gætum bætt við listann og deilt því sem við viljum að aðrir kynnist betur og geti notað í vinnu sinni.

Ég er henni sammála um að Lucidpress er frábært app/viðbót fyrir alla þá sem þurfa að búa til blöðunga til að kynna efni sitt. Eitt af því besta við það er að ef þú hefur G-Suite aðgang fyrir skólann fæst svokallaður premium aðgangur. Þó aðeins hægt að deila innan skólans (lénsins). Það virkar þá vel í verkefnaskilum nemenda og öðrum kynningum innan skólans.

Demo Slam 

Í þessum hluta kepptu nokkrir af þeim sem höfðu verið með vinnustofur yfir daginn um hylli námstefnugesta með því að kynna þeim (selja) fídusa, smáforrit eða viðbætur á þremur mínútum. Námstefnugestir notuðu svo app námstefnunnar til að velja þann sem þeim fannst bestur í að koma á framfæri boðskap sínum. Þar var einnig yfirlit yfir það sem kynnt var. Það er ótrúlegt hvað svona stutt stund getur kveikt margar hugmyndir.

Morguninn eftir var svo tilkynnt hver hefði orðið hlutskarpastur í valinu og fær hann að skreyta sig með þeim titli í framhaldinu.

Þessi dagur einkenndist af eldmóði og vinnugleði EdTechTeam og tókst þeim að smita honum til mín og fleiri sem ég hitti. Eftir fyrstu vinnustofuna fannst mér t.d. að ég þyrfti (og gæti) ekki lært meira þann daginn. Það varð svo öðru nær. Hellingur bættist við og þannig varð það líka daginn eftir.

Við frá Þelamerkurskóla söfunum myndum ferðar okkar saman á Google Photos. Þar má sjá fleiri sjónarhorn en mín.

Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , , , , | 1 Comment