Miðlun reynslu

Ég fylgist með bloggi sem heitir Connected Principals og á dögunum var þar verið að fjalla um hvernig skólastjórnendur gætu miðlað reynslu sinni og þekkingu með því að blogga um starf sitt. Þar rak ég augun í setninguna:

You think you have nothing to say but you have a story to tell!

recite-4cirz7

Þessi setning hefur minnt á sig að undanförnu þar sem ég hef fylgst með stjórnendum reyna sig á því að tísta saman á ESHA ráðstefnunni og einnig á meðan ég hlustaði á fyrirlesara á málstofum ráðstefnunnar hvetja þátttakendur til að segja frá öllu því góða sem um er að vera í skólastarfi og hvernig kennarar og skólastjórnendur læra daglega af starfi sínu. Þannig fræðast aðrir um starfið og þeir sem skrá og miðla, ígrunda starf sitt með því að koma því í orð og deila ígrundun sinni. Og til viðbótar megi segja að starfsþróun stéttarinnar breiðist hraðar út en hún hefur nokkurn tímann haft möguleika á að gera vegna þess að einnig er hægt að miðla lærdómi sínum í starfi með því að segja frá honum í sérstökum hópum á Facebook eða tísta um einstök hugðarefni í starfinu og fylgjast líka með öðrum á Twitter í svipuðum pælingum.

Ég nýtti tækifærið á ráðstefnunni til að taka saman glósurnar mínar í eina litla glósubók á One Note. Áður en ég hélt af stað skipulagði ég hana miðað við dagskrá ráðstefnunnar og það sem ég hafði valið mér að hlusta á og taka þátt í. Hvert atriði fékk einn flipa og innan hans fengu fyrirlesarar blaðsíður. Svo fór að myrkrið í salnum þar sem aðalfyrirlestrarnir voru haldnir, varð til þess að ég notaði Twitter meira en glósubókina og stundum tók ég fleiri myndir en ég náði að setja jafnóðum inn á glósubókina. Enda varla hægt að nota dýrmætan tíma á fyrirlestrum til að föndra við slíkt. Ég gat samt safnað því mesta saman inn á glósubókina þegar heim var komið með því að:

 • Gera samantekt Twitterfærslna minna í Storify og setja samantektina á pdf-skjal (einn möguleiki Storify við að deila því sem þar er geymt) sem ég setti inn í glósubókina. Öðruvísi er erfitt að setja tíst inn í bókina.
 • Hlaða myndunum af símanum inn á albúm á GooglePhotos og setja hlekk af albúminu inn á viðeigandi stað í glósubókinni. Það var t.d. mjög handhægt eftir skólaheimsóknina. Inn á hverja mynd er svo hægt að glósa stutta lýsingu á því sem þar er, sjálfum sér og öðrum til gagns.

Á þessu lærði ég að:

 • Með One Note er auðvelt að nýta sér og tengja saman marga miðla, tæki og tól á netinu til að búa til rafræna glósubók í myndum og máli. Þannig er ég ekki með allt sem ég sé og skrái útum allt, t.d. á netinu, í tölvunni eða í símanum.
 • Það er svo auðvelt að miðla sögu sinni úr ferðinni með því deila glósubókinni rafrænt með öðrum á samfélagsmiðlum, bæði í heild sinni og einstökum blaðsíðum.
 • Það eru til ótal leiðir til að safna upplýsingum, geyma þær og miðla þeim. Það er bara að finna það sem  hentar sjálfum sér og tilefninu hverju sinni; stundum er það blogg, stundum er það Twitter, stundum skjal á Google Drive, stundum færsla á Facebook eða bara eitthvað allt annað.
Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , | Leave a comment

Samglósun

img_1256

Af hverjum lærir þú og hver er þín fyrirmynd? Úr fyrirlestri Zachary Walker

Á dögunum sótti ég ráðstefnu Samtaka skólastjórnenda í Evrópu. Ráðstefnan var haldin í Maastricht í Hollandi og yfirskrift hennar var Leadership matters! Á henni var fjallað um fjögur þemu, í aðalfyrirlestrum, á málstofum, í skólaheimsóknum og ekki síst í skemmtiatriðum:

 • Inspire and Innovate: 21. century leadership
 • Dream of the future: 21. century pedagogies
 • Global citizenship: 21. century competences
 • Well being for 21. century kids

Stór hópur íslenskra skólastjórnenda af öllum skólastigum sóttu ráðstefnuna. Í allt gæti ég trúað að þarna hafi verið um 70 manns frá Íslandi en heildarfjöldi ráðstefnugesta var sagður vera um 600 manns.

Það má alltaf velta því fyrir sér hvaða gildi og áhrif ráðstefnur af þessu tagi hafi fyrir einstaklingana og/eða hópana sem þær sækja. Að mínu mati hafa góðar ráðstefnur eins og ESHA ráðstefnunurnar að öllu jöfnu eru, nokkkurt gildi fyrir skólstjórnendur, bæði faglega og félagslega. Þannig hafa þær áhrif á þá sem hana sækja, meðal annars til að vekja þá til umhugsunar um eigið starf og það getur jafnvel orðið til þess að þeir breyti einhverju í starfi sínu. Eitt er víst að tengslanet flestra styrkist á ráðstefnum sem þessum.

Þegar ljóst varð að svo margir Íslendingar ætluðu á ESHA ráðstefnuna að þessu sinni datt mér í hug að hvetja þá til þess að nýta sér myllumerkið #esha_isl á Twitter til að tísta um það sem þeim þætti áhugaverðast á ráðstefnunni. Markmiðið með þessu var:

 • að fjölga í hópi skólastjórnenda sem nýta sér Twitter
 • að gefa skólastjórnendum raunhæft tækifæri til að sjá hve öflugur miðill Twitter getur verið
 • að flytja rauntímafréttir af ráðstefnunni
 • að safna saman rafrænum glósum íslensku þátttakendanna á einn stað
 • að eiga umræðuefni um ráðstefnuna á einum stað (rafrænt)

Það má segja að íslensku þátttakendurnir hafi tekið vel við sér, þeir tístu að jafnaði 130 tístum á dag þessa þrjá daga sem ráðstefnan var. Þannig söfnuðust saman glósur sem þátttakendur deildu með þeim sem voru á ráðstefnunni og ekki síst með þeim sem ekki voru á staðnum.

Eftir ráðstefnuna safnaði ég tístunum saman í tvær samantektir á vefsvæðinu Storify. Önnur náði yfir ferðalagið til Maastricht og fyrsta dag ráðstefnunnar en í hinni eru samantekt frá öðrum og þriðja degi ráðstefnunnar.

Með samantektunum verða til sögur af sameiginlegri upplifun hópsins sem hann getur nýtt til samræðu um lærdóminn af ráðstefnunni og jafnframt nýtt til að miðla til þeirra  sem ekki voru á staðnum á rauntíma.

Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , | 1 Comment

ESHA 2012 Mark van Vugt

Þar sem ESHA ráðstefnan er í komandi viku rifjaðist upp fyrir mér að einn af aðalfyrirlesurum ESHA ráðstefnunnar 2012 var Hollendingurinn Mark van Vugt og hann mun einnig tala á ráðstefnunni í Maasticht. Hérna fyrir neðan er pistill sem ég skrifaði upp úr fyrirlestri hans eftir heimkomuna 2012 og birtist hún þá á heimasíðu Skólastjórafélags Íslands:

Mark Van Vugt er professor í sálfræði við VU Háskólann í Amsterdam. Rannsóknir hans og skrif hafa birst í mörgum virtum tímaritum og einnig þeim sem teljast “poppvísindatímarit”, sjá: http://www.psychologytoday.com/blog/naturally-selected

Sérsvið Van Vugt er á sviði stjórnunar-/leiðtogafræða innan félagssálfræðinnar. Síðustu skrif hans (2012) og rannsóknir beinast að hegðun og samspili leiðtoga og fylgjenda þeirra. Þeir sem vilja kynna sér betur verk hans er bent á heimasíðuna www.professormarkvanvugt.com.

Hvers konar leiðtoga viltu fylgja?

Í upphafi fyrirlestrarins sýndi Van Vugt myndir af tveimur stjórnendum. Annan þeirra nefndi hann Larry og hinn John og sagðist gjarnan spyrja áheyrendur sína hvor þessara manna þeir vildu frekar vera. Báðir stjórnendurnir þykja hafa náð góðum árangri í störfum sínum. Larry á sportbíla, skútu og önnur eftirsóknarverð farartæki. Og í fréttum kemur fram að hann er nýlega kvæntur í þriðja sinn.

Á heimasíðu fyrirtækisins hjá John kemur í ljós að á síðasta ári fékk hann greiddan 1 dollara í arð af fyrirtækinu. Það var ekki vegna þess að fyrirtækið gekk illa heldur vegna þess að John segist ekki hafa þörf fyrir meiri peninga; hann eigi og hafi allt sem hann þurfi. Arður fyrirtækisins muni framvegis verða notaður starfsmönnum og viðskiptavinum til hagsbóta.

Van Vugt fullyrti að oftast vildu fleiri áheyrenda hans vera Larry. Van Vugt sagðist svo næst spyrja spurningar sem væri mikilvægari en sú fyrri: hvort myndir þú vilja vinna hjá Larry eða John? Hann sagði að þá snérist dæmið oftast við. Flestir vilja vinna hjá John.

Forysta skiptir máli

Forysta skiptir máli á öllum sviðum samfélagsins því bæði er til góð og slæm forysta. Það skiptir máli hver og hvernig er stjórnað, t.d. í menntun samfélagsins og hvort leiðtogar velja að leysa vanda með friði eða ófriði.

Van Vugt varar samt við ofmati á stjórnendum því þeim getur orðið á eins og öðrum og eru ekki allir starfi sínu vaxnir þó þeir hafi verið valdir til forystu og eigi sér marga fylgjendur.

Kenningin

Erindi sitt byggði Van Vugt á rannsóknum sínum sem hann hefur skrifað um í bókinni Naturally selected Hann bendir á að fljótlega (25 sekúndur) eftir að hópur hefur myndast hefur hann, án umræðu, valið sér hver sé sá sem hlustað verður meira á og muni leiða hópinn í verkefninu.

Maðurinn er í eðli sínu hópvera sem hefur umfram aðrar verur þróað með sér færni til að vera hluti af hóp. Hann getur bæði leitt hóp og verið fylgjandi í hópi. Samkvæmt Van Vugt er þetta hæfileiki sem maðurinn hefur þróað með sér frá örófi alda.

 1. Hann segir að heilabúið geymi tengsl um það hvers konar leiðtogum maðurinn fylgir miðað við í hvaða aðstæðum hann er þau verkefni hópurinn þarf að leysa.
 1. Einstaklingar innan hvers hóps hafa mismunandi markmið og ágóða af samvinnu hópsins. Árangur hópsins er undir því kominn hvernig einstaklingarnir innan hans koma sér saman um sameiginlegt markmið. Hvað ertu tilbúinn að láta mikið af hendi?
 1. Manneskjunni er eðlislægt að vera fylgjandi; að fylgja leiðtoga og að fylgja hópnum. Þá er mikilvægt að spyrja sig að því af hverju þú fylgir ákveðnum leiðtoga? Viltu sjálfur einhvern tímann leiða hóp? Viltu fá ákveðna vitneskju eða læra meira? Vera hluti af hópnum?Og síðan þarf að velta fyrir sér á hvaða hátt leiðtogi fær fylgjendur. Leiðtogar verða ekki til nema þeir afli sér fylgjenda. Samkvæmt Van Vugt skiptir það höfuðmáli fyrir framhaldið hvernig leiðtogar koma fram við sína fyrstu fylgjendur (að styðja þá og styrkja). Því það eru þeir sem munu afla hugmyndum leiðtogans fleiri fylgjenda svo úr því geti orðið fjöldahreyfing sem mun breyta einhverju fyrir hópinn.
 1. Frá örófi er lýðræði hópum eðlilegt; þ.e. að komast að sameiginlegri niðurstöðu svo hópurinn geti komist af. Innan hópa eru samskiptamynstur sem verða til þess að hópurinn velur sér leiðtoga og/eða stoppar þá af sem ekki geta orðið hópnum til heilla til framtíðar.Í frumstæðum hópum veljast einstaklingar til forystu út frá því hvað þeir geta og kunna svo þekking þeirra og færni geti orðið hópnum til framfara. Þar þekkist ekki að einn úr hópnum hafi alræðisvald yfir lengri tíma yfir hópnum.
 1. Vald yfir hópum á sér líka dökka hlið. Þ.e. þegar einstaklingi tekst að ná yfirhöndinni með valdi eða á kostnað annarra í hópnum eða annarra hópa. Það gerist oftast þegar hópurinn á í deilum innbyrðis eða á í útistöðum við annan hóp. Þ.e.a.s. aðstæður sem koma í veg fyrir að hópnum finnst hann komast sæmilega af. Þá getur misjöfnum foringjum tekist að afla sér fylgjenda vegna þess að aðstæðurnar kalla á foringja sem þykir hafa lausnir fyrir hópinn. Þetta gerist þrátt fyrir að hópurinn eigi að hafa innbyggt kerfi sem á að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst (dæmi: ýmsir einræðisherrar).
 1. Rannsóknir Van Vugt og félaga benda til þess að fólk velji sér leiðtoga út frá útliti þeirra og aðstæðunum sem þeir eiga að starfa í: á ófriðartímum virðist fólk velja sér karllæga leiðtoga en kvenlæga á friðartímum. Niðurstöðurnar benda til þess að staðalímyndirnar ráði meiru en við viljum trúa.
 2. Útgeislun (karisma) leiðtoganna verður m.a. til vegna orðsnilldar leiðtoganna. Þeir hafa hæfileika til að nema sameiginlegar þarfir hópsins og koma þeim í orð á þann veg að hópurinn finnur til samkenndar innbyrðis og við leiðtogann. Van Vugt benti á að í skólaumhverfinu (inni í kennslustofunni) væri þetta mikilvægur hæfileika.
 3. Staðalímyndir (byggðar á reynslu kynslóðanna) okkar um leiðtoga rugla okkur í ríminu. Niðurstöður rannsókna Van Vugt og félaga benda til þess að við tengjum saman hæfni leiðtoga og útlit þeirra, t.d. hæð. Það skipti kannski máli fyrr á öldum þegar afkoma hópsins byggðist á því hvort foringi hans var stór og sterkur. Það skiptir síður máli í samfélagi nútímans.

Hvað er hægt að nýta af rannsóknum Van Vugt í skólastarfi:

 1. Van Vugt sagði að rannsóknir hans bendi til þess að manneskjan ráði ekki enn við mjög stórar heildir. Og til að hópar nái sem bestum árangri þurfi að miða við að þeir séu ekki óviðráðanlega stórir fyrir þá sem í þeim starfa. Huga þarf að því að hóparinir séu ekki stærri en svo að þeir sem í þeim starfa nái að rækta félagstengsl innan hópsins. Á þann hátt tekst m.a. að þekkja og styrkja leiðtogana innan hópsins og að virkja þá þegar við á.
 1. Hlúa vel að fylgjendunum. Gefa rými fyrir það óformlega, samveru og skemmtanir.
 1. Láta ekki staðalímyndir ráða við val á leiðtogum. Rækta fjölbreytileikann.
Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , | Leave a comment

Hugleiðingar um faglega forystu kennara

Á alþjóðadegi kennara í gær hélt Kennarasamband Íslands skólamálaþing og fékk til landsins Dr. David Frost prófessor við Háskólann í Cambirdge. Hann sagði frá vinnu sinni að starfsþróun kennara þar sem forysta þeirra er efld til breytinga á skólastarfi. Hægt er að fá stutta kynningu á verkefni hans á þessu myndbandi. Einnig var efni um verkefnið safnað saman á vefsíðu Kennarasambands Íslands.

Fyrir hönd Skólastjóra Íslands tók ég saman hugleiðingu um fyrirlestur hans í ljósi aðstæðna á Íslandi:

david-frost_hugleiding

Það er varla hægt að tala um að efla forystu kennara án þess að gera fagmennsku einhver skil. Það hefur reynst mér vel að skoða fagmennsku kennara og skólastjórnenda út frá myndinni hér að ofan. Á henni hvílir fagmennskan á tveimur stólpum, annar þeirra er frelsi kennarans til að velja þá kennsluaðferð sem hann telur henta hverju sinni og hinn eru ábyrgð kennarans og skylda hans til að geta fært kennslufræðileg rök fyrir vali sínu og sýninni sem stýrir því vali. Líkan Frost og áætlun hans eflir að mínu mati þann þátt fagmennskunnar þar sem kennarar ígrunda starf sitt í samfélagi við aðra kennara; þar er búinn til samtalsvettangur þar sem þeir færa rök fyrir vali sínu á aðferðum og sýn.

Nálgun Frost minnir um margt á rannsóknir og skrif Trausta Þorsteinssonar sem hann og fleiri, segja frá í bókinni Fagmennska í skólastarfi. Þar nefnir Trausti fjögur tímaskeið eða snið fagmennskunnar og vitnar þar til Andy Hargraeves. Þeir félagar segja að tímaskeiðin eða sviðin séu ekki þannig að þegar eitt þeirra komi þá kveðji hin. Þau eru öll til staðar í skólum með einum eða öðrum hætti. Segja má að þrjú þeirra séu nú þegar í skólastarfi en hið fjórða sé í þróun í skólum. Skeiðin eru: ósjálfstæð fagmennska, sjálfstæð fagmennska, samvirk fagmennska og síðan framtíðarfagmennska.

david-frost_hugleiding2

Það er eftirsóknarvert fyrir skólastarf að vinna að samvirkri forystu vegna þess að hún byggir á lýðræðislegum gildum þar sem kennarar og skólastjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á skólastarfinu og taka fúsir forystu og verkefnin sem þarf að leysa svo skólastarfið nái markmiðum sínum. Í samvirkri forystu er starfsþróun sjálfsagður þáttur í skólastarfinu og er þess vegna samofin daglegu starfi. Þar er samvinna allra sem að skólastarfinu koma lykillinn af farsælu starfi.

Í skólastarfi með samvirka forystu er unnið að framtíðarforystu þar sem starfsmenn hafa skilning á því að skólastarf í fjölbreyttu samfélagi númtímans nær vart árangri nema í nánu samstarfi við umhverfi sitt, nemendur, foreldra, nærsamfélag og hópa af ýmsu tagi. Framtíðarforystan kallar á að kennarar hlusti eftir nýjustu rannsóknum á sviði menntamála og tileinki sér nýjungar sem skipta menntun nemenda þeirra máli. Andstætt ósjálfstæðu fagmennskunni getur samvirka fagmennskan og framtíðarfagmennskan skilið hismið frá kjarnanum í þessum efnum því í umhverfi þeirra hefur umræða um sýn og gildi skólastarfsins verið þroskuð.

Í starfsumhverfi skólafólks er hægt að benda á nokkur atriði sem stuðla að því og viðurkenna að starfsþróun er mikilvægur liður í að efla forystu kennara og skólastjórnenda. Í fyrsta lagi vil ég nefna stofnun og vinnu fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara. Ráðið var samstarfsvettvangur menntamálaráðuneytis, Sambands ísl. sveitarfélaga, KÍ og þeirra þriggja háskóla sem bjóða kennaramenntun. Fyrr á þessu ári skilaði ráðið af sér skýrslu þar sem gerð var grein fyrir vinnu ráðsins og tillögum þess að áframhaldandi vinnu að starfsþróun kennara og skólastjórenda.

Í öðru lagi vil ég nefna starfsþróunartíma grunn- og framhaldsskólakennara í kjarasamningum þeirra en í þeim liggur einmitt viðurkenning vinnuveitanda á mikilvægi þess að hluta af vinnutímanum verji kennarar til að auka og viðhalda eigin starfshæfni en þannig hljómar einmitt 9. grein siðareglna Kennarasambands Íslands.

Í þriðja lagi bendi ég á að Samband ísl. sveitarfélaga og Skólastjórafélag Íslands gerðu með sér samkomulag um hlutverk skólastjórnenda grunnskóla. Þar er faglegri og kennslufræðilegri forystu skólastjórnenda gert hátt undir höfði og viðurkennt að stór hluti starfs þeirra eigi að fara í að byggja upp og efla menningu lærdómssamfélags. Til að fylgja þessu eftir hafa námstefnur Skólastjórafélags Íslands tekið mið af því að styðja skólastjórnendur í þessum þætti starfsins. Í fyrra heimsótti Viviane Robinson félagsmenn og sagði frá rannsóknum sínum og æfði með félögum aðferðir sem auka kennslufræðilega forystu þeirra.

Í líkani Viviane Robinson sem hún byggir á rannsóknum sínum eru fimm víddir kennslufræðilegrar forystu skólastjórnenda:

 • setja markmið og byggja upp væntingar,
 • nýta bjargir í samræmi við markmið og stefnu
 • tryggja gæði kennslunnar
 • leiða endurmenntun og starfsþróun kennara
 • tryggja öryggi og velferð nemenda

Í rannsóknum Viviane kemur fram að það sem hefur mest áhrif á námsárangur nemenda er hvernig skólastjórinn býr að endurmenntun og starfsþróun kennara.

david-frost_hugleiding3

Það er ljóst að án uppbyggilegrar endurgjafar og umræðu getur starfsþróun virst án samhengis og tilgangs. Í síðustu niðurstöðum TALIS-rannsóknarinnar kom fram að hér á landi er endurgjöf til kennara verulega miklu minni en að meðaltali í TALIS-löndunum. Þar segir einnig að skólastjórar á Íslandi veita miklu minni endurgjöf til kennara en kollegar þeirra í TALIS-löndunum gera að meðaltali. Í sömu rannsókn kom ennfremur fram að kennarar óska eftir því að skólastjórnendur séu virkari þátttakendur en þeir eru í leiðsögn og mati á starfi þeirra. Það kom líka fram að skólastjórnendur töldu sig ekki koma þessu verkefni fyrir í vinnutíma sínum vegna þess hve stór hluti hans fer í dæmigerð stjórnunar- og stjórnsýslumál.

Í tillögum fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara og skólastjórnenda og markmiðum Skólastjórafélags Íslands til að bæta starfsumhverfi skólastjórnenda er lagt til og unnið að því að stjórnunarkvóti verði aukinn í skólum og að kennsluskylda skólastjórnenda verði minnkuð.

Almennt er viðurkennt að skólastjórnendur hafi áhrif á skólann sem þeir stjórna og veruleg áhrif á mótun starfsmenningarinnar. Því er jafnvel haldið fram að þessi hluti skólastjórnunarinnar sé sá mikilvægasti. Michael Fullan bætir því við þeir skólastjórar sem nái að ráða við flóknar og síbreytilegar aðstæður megni að innleiða og festa í sessi varanlegar breytingar til batnaðar fyrir skólastarfið í heild.

Það er mat mitt að þó lítill samræmdur og formlegur strúktúr sé á starfsþróun kennara og skólastjórnenda hér á landi þá er margt í umhverfinu sem býður uppá að við getum markvisst unnið að því að þróa fagmennsku okkar. En eins og frelsi fagmennskunnar býður er það á ábyrgð hvers og eins okkar hvernig við veljum að haga starfi okkar svo það skili árangursríku skólastarfi. Því til áréttingar geri ég orð Trausta Þorsteinssonar úr bókinni Fagmennska í skólastarfi (2013) að lokaorðum mínum:

recite-q8i1hx

Posted in Starfsþróun, Uncategorized | Tagged , , | Leave a comment

Stikur á leiðinni

stika

Í vikunni fylgdi ég fjórum nemendum á miðstigi 10 km í Norræna skólahlaupinu. Allir höfðu þeir valið sjálfir að fara lengstu vegalendina í hlaupinu. Þegar hlaupið var tæplega hálfnað voru nokkrir orðnir vonlitlir um að þeir gætu lokið hlaupinu; einum var orðið illt í fótunum, einn hélt að honum væri orðið flökurt, einn var með stein í skónum og einum var alltof heitt. Þegar svo var komið benti ég á að fljótlega myndum við koma á drykkjarstöðina þar sem við værum hálfnuð. Það væri hægt að meta þar hvort þeir ætluðu að ljúka við hlaupið eða hætta.

Þegar við komum að drykkjarstöðinni við 5 kílómetrana og allir höfðu fengið sér bita af banana og vatnssopa voru nemendur sammála um að þeir myndu geta lokið við 10 kílómetra. Það varð samt þannig að þreytan fór aftur að gera vart við sig eftir 200-300 metra og sömu kvartanir og áður létu á sér kræla. Ég stakk þá upp á því að hópurinn hlypi að ákveðnum stað á leiðinni og þegar þangað væri komið myndum við ganga smáspöl. Aftur gerðist það eftir nokkur hundruð metra að þreytan í hópnum sagði til sín. Ég nefndi þá annan stað á leiðinni sem var nær okkur en sá fyrri og aftur samþykkti hópurinn að halda áfram. En ekki leið á löngu þar til þreytan var um það bil að buga hópinn.

Nú voru góð ráð dýr og ég íhugaði hvort ég myndi nokkuð koma hópnum á leiðarenda. Þá datt mér í hug að miða áfangana okkar við stikurnar sem voru rétt fyrir framan nefið á okkur, því ljóst var að staðirnir sem við sáum ekki og ég hafði stungið upp á áður hvöttu nemendur ekki til að halda áfram. Ég stakk upp á því að við hlypum 10 stikur og myndum svo ganga 5 stikur. Á leiðinni þróaðist sá leikur að við skiptumst á að telja stikurnar. Sá sem var lengst til hægri á veginum byrjaði að telja og síðan töldum við koll af kolli þar til allir höfðu sagt töluna upphátt og tíu stikum var náð. Svo fór að allir voru með athyglina á talningu stikanna. Þegar við gengum stikurnar fimm töldum við þær í kór. Eftir hverja 15 stiku lotu las ég upp upplýsingar af hlaupaúrinu mínu um heildarvegalengd, hve mikið væri eftir og hve hratt við hefðum farið. Svona héldum við áfram þar til ég tilkynnti að 900 metrar væru eftir; minna en einn kílómetri og að baki væru meira en níu kílómetrar. Þá var eins og við manninn mælt, hópurinn tók á rás þrátt fyrir að lokaspretturinn væri nokkuð löng brekka. Hópurinn fagnaði mikið og af öllu hjarta þegar í mark var komið. Það mátti greina sigurglampa í augum þessara fjögurra nemenda og hróðug sögðu þeir kennaranum á endastöðinni frá því hvernig þeir hefðu lagt þessa tíu kílómetra að velli: Bara með því að telja stikur!

Eftir hlaupið hef ég velt því fyrir mér hvort hægt væri að yfirfæra gleðina við að sigrast á verkefninu og ná markmiðinu yfir á skólastarf. Í skólanum sjáum við það oftar en ekki að nemendur sjá ekki tilganginn með því sem þeir eru að gera í kennslustofunni og tengsl þess við markmið skólagöngunnar og námsins í heild. Það ætti að vera markmið okkar í skólanum að gera nemendum sýnilegt að hver kennslustund er skemmtileg lota af stikum. Kennslustundirnar eiga að vera lærdómslota þar sem nemendur og kennarar þokast í sameiningu leiðina að heildarmarkmiði skólastarfsins.

Posted in Hlaupið og skokkað | Tagged , , | Leave a comment

Auglýsingasnepill verður vefsvæði

maelingar

Fyrir nokkru tók ég þátt í því að undirbúa ráðstefnuna Vegur til farsældar? Mat og mælingar á árangri skólastarfs. Þar sem nokkrar stofnanir komu að skipulaginu þótti vænlegt að finna leið til að búa til eina auglýsingu sem allar stofnanirnar gætu dreift á miðlum sínum og að án lítillar fyrirhafnar væri hægt að uppfæra auglýsinguna jafnóðum og upplýsingar um ráðstefnuna bærust undirbúningshópnum.

Þar sem ég hef kynnst Smore nokkuð vel til að búa til rafrænar auglýsingar stakk ég uppá því að hópurinn nýtti sér það kerfi. Það er skemmst frá því að segja að eftir því sem á undirbúninginn leið þróaðist litli rafræni snepillinn sem átti að vera auglýsing, yfir í að verða vefsvæði ráðstefnunnar með því að nýta með honum það sem Google Drive, Twitter og bein útsending hafa uppá að bjóða:

 • Upplýsingaskjöl ráðstefnunnar voru vistuð á Google Drive og hlekkjuð inn á auglýsinguna.
 • Skráning ráðstefnunnar fór fram í gegnum Google Forms og hlekkjað inn á hnapp á auglýsingunni.
 • Spurningar til umræðna í hópunum voru settar upp í Google Forms og hlekkjaðar inn á auglýsinguna. Skráningar hópanna voru svo gerðar öllum aðgengilegar að lokinni ráðstefnunni.
 • Búið var til myllumerki fyrir ráðstefnuna til að auðvelda fólki að tísta glósum sínum eða leggja fram spurningar til umræðu. Eftir ráðstefnuna var þeim safnað saman í eina “sögu“.
 • Ráðstefnunni var streymt í gegnum netið og upptakan síðan gerð aðgengileg á vefsvæði að henni lokinni.

Fyrir utan að þetta ferli staðfesti fyrir mér að rafræna umhverfið auðveldar samvinnu og styttir vegalengdir lærði ég:

 1. Að möguleikar rafræns umhverfis eru fleiri en augljóst er við fyrstu sýn.
 2. Að “ókeypis” kerfi á netinu hafa líka fleiri möguleika en augljóst er við fyrstu skoðun.
 3. Að rafræna umhverfið gefur möguleika á að fleiri en þeir sem staddir eru á viðburðum eins og þessari ráðstefnu, séu þátttakendur á rauntíma.
 4. Að rafræna umhverfið víkkar út hugtakið ráðstefnugestir, bæði á meðan á ráðstefnunni stendur og líka eftir að henni lýkur.
 5. Að rafræna kerfið gefur fleiri tækifæri en áður til að koma umræðum og niðurstöðum til skila og getur auðgað hana og haldið umræðunni lengur lifandi en áður var mögulegt.

Þetta ferli staðfesti fyrir mér enn og aftur að rafræna umhverfinu eru litlar skorður settar, helst að þær séu mannlegar. Ennfremur sannfærðist ég enn betur um að í skólastarfi þarf að fjölga stundum og verkefnum þar sem kostir þessa umhverfis eru nýttir.

Hérna er svo litli snepillinn sem varð vefsvæði og hefur verið skoðaður meira en 1200 sinnum.

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , | Leave a comment

Starfsmannafundir

Eins og aðrir fundir þá geta starfsmannafundir verið misjafnir og margs konar; tilkynningafundir, vinnufundir, matsfundir, lærdómsfundir, skemmtilegir, orkumiklir eða leiðinlegir, allt eftir eðli aðstæðna og markmiðs þeirra. 

Nú þegar skólaárinu lýkur eru sjálfsagt margir að líta yfir farinn veg og setja sér markmið og áherslur næsta vetrar. Það er alla vega meiningin í Þelamerkurskóla.

Um helgina datt mér í hug hvort orðaský gæti ekki verið niðurstöðublað úr hópumræðum starfsmannahópsins. Það er tölvuert langt síðan ég skoðaði síðast leiðir til að búa til orðaský. Ég hef í gegnum tíðina mest notað Word It Out af því mér finnst það aðgengilegt, smart og auðvelt. Eftir því sem ég kemst næst þá breytir það ekki stærð orðanna eftir því hve oft þau koma fyrir í textanum sem búa til skýið og í þessu samhengi fannst mér það skipta máli.

Til að skoða fleiri möguleika fann ég þessa grein sem segir frá átta möguleikum sem kennarar geta notað til að búa til orðaský.

 • TagCrowd býr til orðasúpu og sýnir bæði með tölum og stærð orðanna hve oft þau koma fyrir.
 • Wordclouds virðist taka tillit til þess hve oft orðin koma fyrir en mér sýnist að ef þau koma of oft fyrir þá sleppi forritið því að birta þau.
 • Tagul virðist vera einfalt í notkun og einnig er hægt að stilla sjálfur stærð orðanna í skýinu og það virðist stækka orðin eftir því hve oft þau koma fram í orðalistanum.

Cloud 2Fleiri prófaði ég ekki af listanum því ég var komin með það sem ég þurfti. En hugmyndin er að á síðasta starfsmannafundi vetrarins muni hóparnir að koma sér saman um fimm orð sem lýsa vetrinum. Í lok fundar segja hóparnir frá niðurstöðum sínum og á meðan skráum við aðstoðarskólastjórinn orðin jafnóðum niður í orðaský. Mér sýnist að mesta skemmtanagildið á fundinum verði með því að nota Tagul. Það gefur einnig möguleika á að sýna með litum, stærð orðanna og lögun þeirra hvað hópurinn var að hugsa í lok skólaársins. Myndin af því mun síðan verða leiðarljós starfsmanna Þelamerkurskóla næsta vetur.

Það má eflaust útfæra þetta á fleiri vegu, sérstaklega eftir að hópurinn hefur vanið sig á að nýta sér orðaský til að segja hvað fór fram í umræðum. Það má hugsa sér að hver hópur búi til eigið orðaský og geri svo grein fyrir því. En núna í fyrstu umferð held ég mig við að það að við búum til eitt ský úr öllum umræðunum.

 

 

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , | Leave a comment

I am now down to run

Í fyrrasumar fæddist sú hugmynd að fara með vinum okkar í vetrarleyfi til Flórída. Hugmyndin var í vinnslu og undirbúningi  í nokkrar vikur og varð að veruleika um miðjan apríl á þessu ári. Á meðan við vorum að skoða möguleika á fargjöldum og gistingu vaknaði sú hugmynd hjá mér að gaman væri að taka þátt í hlaupi á meðan á dvölinni stæði. Það gæti líka verið ágætis aðhald fyrir mig til að halda mér í hlaupaformi yfir veturinn. Ég leitaði á netinu og fann utanvegahlaup í þjóðgarðinum Jonathan Dickinson Park á vegum fyrirtækis sem heitir Down to run. Í þessu hlaupi var boðið upp á fjórar vegalengdir ásamt skemmtiskokki fyrir börn. Hægt var að velja á milli þess að hlaupa 50 km., hálft maraþon, 10 og 5 km. Ég skráði mig í hálft maraþon og fékk Halldór til að vera með.

Þjóðgarðurinn setur hlaupinu þau skilyrði að þátttakendur séu ekki fleiri en 400-500 og þeir mega ekki skilja örðu eftir sig á brautinni. Drykkjarglös og umbúðir eiga líka að vera í lágmarki og fengum við fyrirmæli um að vera með eigin flöskur í hlaupinu. Það kom svo á daginn að við hverja drykkjarstöð voru lítil glös úr endurvinnanlegum pappa.

Hlaupaleiðin. Það var hvetjandi en ekki letjandi að fara sömu leið til baka. Jók öryggið í lokin.

Þar sem hlaupið byrjaði eldsnemma morguns og íbúðin sem við höfðum leigt okkur í leyfinu var í tveggja tíma akstri frá hlaupinu pöntuðum okkur herbergi í tvær nætur á hóteli skammt frá Jonathan Dickinson Park. Þegar við komum þangað kom í ljós að þar voru aðeins sjö herbergi svo þar var rólegt og þægilegt umhverfi þó það stæði við brautarteina og hringtorg.

Þegar við höfðum tékkað okkur inn á hótelið seinni partinn daginn fyrir hlaupið ókum við að Jonathan Dickinson Park til að kanna aðstæður og hvort við værum ekki örugglega á “réttum” stað. Þegar við komum að hliðinu inn í garðinn var okkur sagt til vegar að rásmarkinu. Þegar við komum þangað voru tveir starfsmenn hlaupsins við undirbúning þess. Þeir sýndu okkur hvar við gætum sótt keppnisgögnin daginn eftir og sögðu okkur frá brautinni og hvað bæri að varast í hlaupinu. Þegar við komum aftur í bílinn vorum við sammála um að þetta hafi verið nauðsynlegur hluti af undirbúningnum. Alla vega róaði þetta nokkrar af taugunum sem höfðu, eins og gengur og gerist, farið að ókyrrast og efast dagana fyrir hlaup. Á leiðinni heim að hótelinu aftur fundum við amerísk/ítalskan veitingastað og lukum við “hleðsluna” fyrir hlaupið. Þar voru skammtarnir svo stórir að við fengum afgangana með okkur heim og það átti eftir að koma sér vel seinna.

Þrátt fyrir spenning vegna hlaupsins tókst okkur að sofa vel nóttina fyrir hlaupið og vorum komin á fætur fyrir klukkan fimm. Nokkur fiðrildi flögruðu um í maganum en ég taldi mér trú um að í þetta skiptið væri það til góða. Ég gæti verið viss um að komast vegalengdina því mér hafði tekist að fylgja æfingaáætluninni nokkuð samviskusamlega mánuðina fyrir hlaupið. Ég var hins vegar ekki viss um hvernig hitinn myndi fara með mig á meðan á hlaupinu stæði.

En einmitt vegna hitans var hlaupið ræst eldsnemma um morguninn. Fyrst voru 50 km. hlaupararnir ræstir kl. 6:30, svo hálfa maraþonið kl. 7:00 og svo koll af kolli þar til hlauparar í öllum vegalengdum voru komnar af stað. Við Halldór höfðum ákveðið að vera samferða í þessu hlaupi, fylgjast lítið með klukkunni og njóta þess að hlaupa utanvega í framandi umhverfi. Það var alveg þess virði því hlaupaleiðin var fjölbreytt og á henni gátum við hlustað á fugla- og skordýrahljóð sem við heyrum ekki venjulega á hlaupum okkar í Hörgárdal. Það var líka auðvelt að fylgja hægu tempói því öll umgjörð og þátttakendur hlaupsins voru afslappaðir og litu út fyrir að vera með í hlaupinu einmitt til að njóta þess og samveru hver við annan. En auðvitað mættum við líka hlaupurum á harðaspretti. Það var gaman að geta vikið úr vegi fyrir þeim og hvatt þá áfram.

Startið, sandöldurnar, hlaupafélaginn og hressir sjálfboðaliðar.

Á leiðinni voru troðnir slóðar sem minntu á línuvegina heima, einstígi sem minntu okkur á kindavegina, forarpollar, trébrýr og að ógleymdum sandöldunum um miðbik hlaupsins þar sem hægði heldur betur á hraðanum. Sandöldurnar þykja einkenni hlaupsins og hafði starfsmaður hlaupsins sagt okkur kvöldið áður að það væri á þessum kafla þar sem “it gets to you”. Það voru góðar upplýsingar því þá gátum við miðað orku-inntökuna við það.

Við höfðum tekið orkugel með okkur að heiman. Það gerðum við til að vera viss um að vera með það sem við höfum áður notað og að lenda ekki í stressi rétt fyrir hlaup við að leita að einhverju sem gæti komið að notum. Drykkjarstöðvar hlaupsins voru sjö og eiginlega hægt að kalla þær frekar orkustöðvar því þar var hægt að fá alls kyns orku eins og litlar samlokur með hnetusmjöri og sultu, M&M, salttöflur, gos, kaldan vatnsúða, hvatningu ásamt vatni og Gatorade. Við vorum sammála um að sjaldan hefðum við tekið þátt í hlaupi þar sem jafnvel væri hugsað um hlauparana vegna þess að sjálfboðaliðarnir sem voru á orkustöðvunum höfðu einlægan áhuga á því að hvetja þátttkendur hlaupsins.

Þó ekki væri á okkur þurr þráður varð hitinn okkur aldrei til trafala samt fór hann upp í 26 gráður en af og til var hægt að vera í skugga og stundum koma andvari á móti okkur ásamt því að sólin hélt sig til hlés hluta af leiðinni.


Eftir tæpar þrjár klukkustundir komum við í mark og hittum stuðningsliðið okkar, Önnu Rósu og Kidda sem samviskusamlega höfðu gætt þess að marklínan væri á sínum stað og að veitingatjaldið og tímatakan væri í lagi þegar við skiluðum okkur til baka. Það er mikils virði að hafa einhverja sem maður kannast við til að hvetja sig áfram síðustu 200 metrana og síðan til að fagna áfanganum með þegar honum er lokið.

Á heildina litið var þátttakan í hlaupinu skemmtileg reynsla í hlaupabankann og nýr vinkill á vetrarleyfi og sól á Florída.

Ánægð hlaupi loknu og með verðlaun fyrir annan besta tímann í flokki 50-59 ára kvenna.

Posted in Á ferð og flugi, Hlaupið og skokkað | Leave a comment

Ég vel vesenið!

Ég viðurkenni að það kemur fyrir að ég vakna fyrir allar aldir vegna þess að ég hef áhyggjur af því sem gerist eða gæti mögulega gerst eða ekki gerst eða ef til vill farið úrskeiðis í vinnunni minni. Stundum gerist þetta af því að í skólanum á að bregða út af vananum og það stendur til að gera eitthvað sem ekki telst til hefðbundins skólastarfs.

Margt í skólastarfi byggir á hefð og vanahegðun bæði fullorðinna og barna. Ég hef alltaf unun af því að sjá hve hratt og vel fyrstu bekkingar venjast hefðum grunnskólans. Undurfljótt læra þeir á stundaskrána sína og vita hvar þeir eiga að vera hverju sinni og til hvers er vænst af þeim. Á hverju ári dáist af hugrekki þeirra og aðlögunarhæfni.

Það er svo þegar þarf að brjóta upp stundaskrána og bregða út af daglegu starfi sem ég hrekk upp um miðjar nætur og velti fyrir mér hvort allt og allir séu tilbúnir í verkefnið og hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis. Þannig var það t.d. á dögunum á meðan á árlegum fjögurra daga skíðaskóla 1.-4. bekkjar Þelamerkurskóla stóð:

 • Eru allir græjaðir til að vera á skíðum? Hvað ef einhverjir hafa gleymt þeim heima?
 • Er rútubílstjórinn með allar tímasetningar?
 • Var búið að láta eldhúsið vita af breyttum matartíma og skíðanestinu?
 • Hvaða kennarar fara aftur með þeim uppeftir?
 • Hvaða foreldrar verða okkur til aðstoðar? Voru þeir búnir að fá allar tímasetningar?
 • Hvers konar skíðakennara fáum við núna?
 • Hvernig er veðurspáin? Þarf að fella niður eða fresta?
 • Verður skíðaleigan búin að taka fram græjurnar? Var annars búið að senda skíðaleigunni upplýsingar um alla sem þurfa að leigja búnað?
 • Hvað ef einhver meiðir sig?

Það er svo þegar ég er búin að fara nokkrum sinnum yfir marga ímyndaða tékklista og spurningar sem ég tek sjálfa mig á alvarlegt eintal:

Hvað viltu?

 • Viltu sjá krakka öðlast færni til að geta stundað almenningsíþrótt þegar fram í sækir?
 • Viltu sjá krakka læra að takast á við óöryggi í nýjum aðstæðum?
 • Viltu sjá krakka fyllast stolti af eigin framförum?
 • Viltu sjá krakka leiðbeina hverjum öðrum og læra saman við nýjar og ókunnar aðstæður?
 • Viltu sjá krakka glaða og rjóða í kinnum eftir lærdóm dagsins?
 • Viltu sjá krakka verða sjálfbjarga í skíðalyftum og brekkum?

Á hverjum morgni skíðaskólans er svarið við öllum spurningunum auðvitað já. Á hverjum morgni skíðaskólans verð ég þá að segja við sjálfa mig: Ef þú vilt þetta þá verður þú að græja allt það vesen sem þessu fylgir.

Og á hverjum morgni skíðaskólans og í hvert einasta skipti sem brugðið er út af hefðbundnu skólastarfi minni ég sjálfa mig á að það fylgir því heilmikið vesen og alls kyns stúss að fara út fyrir fjóra veggi skólastofunnar eða að skipuleggja skólastarf þar sem þarf að slíta sig frá bókum, borði, stól, bók og blýanti.

Skíðaskóli

Rauði hópur lærir að beita köntunum við að stjórna hraða.

Það er nefnilega þannig að það sem telst óhefðbundið skólastarf er alltaf vesen af því það er ekki innan venjubundins dagskipulags. Og vilji maður mjaka skólastarfinu út fyrir þennan vana sem því miður byggir enn á þröngum skilgreiningum á námi þá hefur maður valið vesenið.

 

Posted in skólastjórnun | Tagged , | Leave a comment

Gæðastarf og fagmennska

Um þessar mundir lesa þau sem sitja í framkvæmdastjórn skólamálaráðs KÍ bókina Flip the system, changing education from the ground up. Bókin er greinasafn sem er ritstýrt af Jelmer Evers og René Kneyber. Í hana skrifa kennarar og aðrir sérfræðingar í menntamálum um áhrif miðstýrðra breytinga stjórnvalda út frá hugmyndafræði GERM (e. Global Education Reform Movement) á menntakerfi. Pasi Sahlberg kynnti hugmyndafræði GERM á ráðstefnunni Kennarar framtíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í ágúst 2014. Þar kom fram að þegar menntastefnu er breytt í anda GERM þá bera breytingarnar keim af áherslum frjálshyggjunnar um mælingar á afköstum og skilvirkni. Þegar stjórnvöld og önnur öfl hafa viðmið GERM til hliðsjónar við umbætur á menntakerfinu má rödd kennarastéttarinnar um gildi og gæði menntunar sín lítis. Þá er fremur litið á kennara sem tannhjól í gangvirki menntakerfisins sem er ætlað að fylgja sannreyndum kennsluaðferðum til að ná mælanlegum markmiðum sem aðrir en þeir sem starfa innan menntakerfisins hafa sett.

flip the system

Líkan Flip the system (ísl. hvolfum kerfinu)

Greinasafninu er ætlað að vekja kennararstéttina til umhugsunar um þessar aðstæður og að valdefla hana til breytinga. Rauði þráður bókarinnar (Flip the system) er að kennarar verði sér meðvitaðir um stöðu sína í þessum breytingum og sameinist sem fagstétt um að láta rödd sína heyrast og að fagmennskan verði uppspretta og hreyfiafl breytinganna í stað viðbragða við ytri áreitum.

Það kom m.a. í minn hlut að lesa viðtal René Kneyber við Thijs Jansen. Árið 2005 gaf Thijs Jansen ásamt öðrum út greinasafnið Professional Pain: Why Holland isn´t working. Í greinasafninu tæptu höfundar á efni sem þeim þótti lítið vera rætt meðal stjórnvalda og kennara þar í landi. Í bókinni kom fram að kennarar í Hollandi hefðu orðið fórnarlömb stjórnvalda sem höfðu sjónarmið markaðarins að leiðarljósi. Af menntakerfinu var krafist aukinna afkasta og meiri skilvirkni. Breytingarnar voru svo gerðar án mikils samráðs við kennara sem fagsétt.

Frá útkomu bókarinnar hefur Thijs Jansen þróað sjónarhorn sitt á þessum aðstæðum enn frekar; frá því að trúa því að fagstéttin sé viljalaust fórnarlamb til þess að líta svo á að kennarar séu til viðbótar fórnarlömb sjálfskapaðra aðstæðna. Stéttin hefur sjálf valið að leggja áherslu á kaup og kjör og umræðu um starfsaðtæður án þess að ræða sín á milli og að bjóða öðrum í samtal um gæði og gildi kennarastarfsins og menntunar. Jansen nefnir þessar aðstæður (sjálf)-valinn þrældóm.

Að mati Jansen fannst honum bókin taka til umfjöllunar málefni sem fáir þorðu þá að tala um og þá sérstaklega innan stjórnmálanna, þ.e. gæði skólastarfsins. Hann vill meina að það sé vegna þess hve miklu auðveldara sé að viðhalda orðræðunni um mælanlegar afurðir, starfsaðstæður og peninga en að tala um gæði starfsins.

Thijs Jansen fullyrðir að það sé mjög erfitt fyrir hvaða fagstétt sem er að koma sér saman um hvað sé gæðastarf og hvað ekki. Hann nefnir að mælingar á þröngum og afmörkuðum sviðum menntunar eins og OECD stundar með PISA séu dæmi um utanaðkomandi mælingar á menntakerfum sem hafi of mikil áhrif og þar með völd á hendi. Máli sínu til stuðnings nefnir Jansen John Dewey sem hefur sagt að það sé ekki rétt að byggja mælingar á starfsgreinum á einingum sem ekki eru hluti af sjálfu starfinu.

Thijs Jansen vill meina að fagmennirnir sjálfir eigi að meta og setja viðmið um hvað sé gæðastarf og hvað ekki. Andhverfa þess sé þegar stjórnvöld og jafnvel sumir fagmenn trúi því að “sá sem borgi ballið” eigi að ráða taktinum og hvernig dansað sé á ballinu. Hann nefnir sem dæmi að stundum sleppi stjórnvöld takinu og aðgreini innihald og aðferðir með því að ákveða hvað eigi að fara fram en gefa kennurum svo frelsi til að velja aðferð að settu marki. Að hans mati er það hlutverk stjórnvalda miklu fremur að styðja við fagstéttir og láta þeim eftir að velja bæði innihald og aðferðir starfsins.

Að mati Thijs Jansen er það heiður og virðingarstaða að geta kallað sig fagmann og til að svo geti orðið hafi kennarinn ákveðnum skyldum að gegna gagnvart starfinu. Forsenda þess að fagmennska þrífist í skólastarfi sé að kennarar hafi frelsi til að velja aðferðir og innihald starfsins en því fylgi jafnframt sú ábyrgð að geta fært rök fyrir vali sínu.

Jansen leggur áherslu á að fagmennskan eflist í samfélagi fagmanna og segir kennara hafi skyldu til að styðja og hvetja hvern annan í starfi. Hann nefnir jafnframt þrjú meginatriði sem sérhver kennari beri ábyrgð á að fylgja til að efla eigin fagmennsku og þar með stéttarinnar í heild.

 1. Í samstarfi við aðra fagmenn ætti sérhver fagmaður að viðhalda fagmennsku sinni með sífelldri og sjálfsprottinni starfsþróun.
 2. Að vera stoltur af starfi sínu og einnig starfi kollega sinna með því að hvetja þá og vekja athygli annarra á störfum þeirra. Í þessu samhengi bendir Thijs á að hver og einn þurfi að feta meðalveginn milli sjálfshóls og auðmýktar.
 3. Það er lítill vandi að vera stoltur af starfi sínu en viðurkenningu, heiður og sóma fyrir starf sitt þarf að vera verðskuldað. Það er undir fagmennsku hverrar stéttar komið, þ.e. hvernig hún eflir og fóstrar gæði starfsins, að sækja sér viðurkenningu samfélagsins fyrir störf sín.

Greining Thijs Jansen og félaga á aðstæðum í Hollandi á undanförnum áratug getur einnig átt við íslenskan veruleika og vekur upp spurningar um hvernig kennarar hér á landi geta aukið umræðu og eigin vitund um fagmennsku starfsins og þannig haft áhrif á starfsaðstæður sínar og gæði menntunar.

Posted in Að láni frá öðrum, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged | Leave a comment