Hvað ætlar þú að gera?

Það er auðvelt að finna það sem mætti vera betra og það er líka auðvelt að kvarta yfir einhverju sem mætti vera öðruvísi. Það er öllu erfiðara að finna lausnir þar sem maður sjálfur er hluti af lausninni. Á ráðstefnu Alþjóðasamtaka kennara (EI) um menntun og skólagöngu flóttabarna sem ég sótti í síðustu viku var dregin upp mynd af aðstæðum flóttamanna í tölum, máli og myndum. Einnig voru á dagskrá umræðuhópar þar sem þátttakendur ræddu mögulegar lausnir og leiðir til að bæta aðstæður barna og ungmenna á flótta. Í umræðuhópunum var hlustað eftir reynslu þátttakenda og reynt að búa til verkefni sem gætu orðið til bóta.

Á ganginum framan við ráðstefnusalinn höfðu skipuleggjendur ráðstefnunnar einnig komið fyrir myndatökuboxi eins og við þekkjum úr verslunarmiðstöðvum og notum okkur  til gamans til að taka af okkur skyndimyndir. Þetta box kölluðu skipuleggjendur “the pledge booth”. Þátttakendur ráðstefnunnar áttu sem sagt að fara inní boxið og segja myndavélinni sem þar var hvað þeir ætluðu að gera við lærdóminn af ráðstefnunni. Fyrst um sinn voru þátttakendur tregir til að stíga inn í boxið og var ég meðal þeirra. Ósjálfrátt þóttist ég ekki sjá boxið. Ég sagði sjálfri mér að ég vissi ekkert um þetta og greip jafnvel til þess að segja sjálfri mér að ég gæti nú ekki mikið gert, þetta væri svo svakalegt verkefni!

Þegar leið á seinni dag ráðstefnunnar sá ég að fyrir framan boxið var komin biðröð og flestir sem þar stóðu voru með miða í hendinni. Á miðunum voru loforðin sem þeir lásu upp inni í boxinu. Enn lét ég sem ekkert væri og taldi sjálfri mér trú um að þessi liður ráðstefnunnar væri valkvæður og hefði ekkert með mig að gera. Aðrir ættu að sjá um þetta!

Hópurinn sem ég starfaði með rétt fyrir ráðstefnuslitin var fljótur að vinna og fyrir vikið fengum við lengra kaffihlé. Í hópnum voru Íri og Skoti sem fóru að kíta um það hvort þeirra yrði með betri lesningu inni í boxinu. Írinn lét Skotann æfa sig fyrir framan okkur hin og svo spurðu þau bæði: Og hvað ætlar Ísland að gera? Ég gat auðvitað ekki sagt: Ekkert! Heldur sagði ég að ég ætlaði að nota aukatímann okkar til að undirbúa mig. Ég kom mér fyrir í sófahorni og skráði á símann minn það sem mér datt í hug að ég gæti mögulega gert við lærdóm þessara daga. Ég fór þvínæst í röðina og inn í boxið. Þar stóð ég fyrir framan IPad á upptöku og taldi upp það sem mér hafði dottið í hug.

Þegar frá líður finn ég að í þessari litlu yfirlýsingu sem ég þuldi upp fólst skuldbinding þar sem ég hef tekið ábyrgð á því að leggja mitt af mörkum fyrir málefni ráðstefnunnar. Með þessu litla verkefni tókst skipuleggjendum ekki bara að vekja þátttakendur til umhugsunar heldur líka að ýta okkur til aðgerða. Það er til eftirbreytni vegna þess að það er mjög auðvelt og afar einfalt að mæta á ráðstefnu til útlanda, safna saman á glósum og láta svo bara þar við sitja.

Ef boxið á ganginum hefur haft sömu áhrif á aðra ráðstefnugesti eins og það hafi á mig er ég viss um að við þokumst nær lausnum en við höfum hingað til gert. Við berum nefnilega öll ábyrgð á þessu verkefni eins og öðrum sem gera heiminn betri.

Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged | Leave a comment

Ábyrgðin er mikil og verkefnin mörg

Undanfarna tvo daga hef ég ásamt Ingibjörgu Kristleifsdóttur formanni FSL og Aðalheiði Steingrímsdóttur varaformanni KÍ verið í Stokkhólmi á ráðstefnu Education International um menntun flóttabarna. Við fórum sem fulltrúar KÍ á ráðstefnuna og markmiðið með þátttöku KÍ í ráðstefnunni var að afla þekkingar svo KÍ geti gert sig gildandi í stuðningi við menntun barna í hópi flóttamanna og hælisleitenda hér á landi.

Ráðstefnuna sóttu meðal annars kennarar, fólk frá kennarasamtökum víða um heim, kennaranemar og stjórnmálamenn. Dagskrá ráðstefnunnar var fjölbreytt þar sem mörgum hliðum á málefninu var velt upp, allt frá því að kennarar sögðu frá starfi sínu við kennslu í flóttamannabúðum og kennslustundum í móttökulöndum til þess að sýndar voru tölur úr PISA um frammistöðu flóttabarna í skólum víðs vegar um heiminn. Einnig fengum við að heyra stjórnmálamenn segja frá stefnu stjórnvalda í málefnum flóttabarna. Drjúgur tími fór í umræðuhópa og vinnustofur þar sem ráðstefnugestir ræddu málefnið frá ýmsum hliðum og fundu mögulegar lausnir og verkefni til að vinna að.

Áhrifamest þótti mér

img_1524

Hanan Al Hroub segir frá starfi sínu

 • Að hlusta á Hanan Al Hroub segja frá starfi sínu sem kennari í Palestínu. Hún kennir börnum sem búa við ofbeldi af völdum stríðs. Í starfi sínu leggur hún áherslu á leikinn í námi barnanna og að börnin upplifi öryggi, samkennd og hlýju í skólastofunni. Hanan Al Hroub var bæði aðalfyrirlesari og tók þátt í pallborði kennara sem kenna flóttabörnum. Aðstæður hennar og viðbrögð hennar við þeim eru gjörólíkar þeim sem ég á að venjast í skólastarfi. Eins og aðrir nemendur bera nemendur hennar reynslu sína inn í skólastofuna; reynsluheimur nemenda Hanan er stríð, hatur og ofbeldi. Hún nálgast börnin með umhyggju og auðmýkt og leggur sig fram um að skapa öruggt umhverfi fyrir nemendur sína þar sem þeir læra að takast á við veruleikann utan skólans með því að velja ekki ofbeldið. Það er ekki annað hægt en að fyllast aðdáun yfir því hvernig hún tekst á við aðstæður og helgar sig málefninu.
img_1576

Það eru ekki allar skólalóðir grasi grónar

 • Að hlusta á Natalie Scott sem hefur kennt í ólöglegum flóttamannabúðum í Frakklandi. Aðstæður þar eru ömurlegar á allan hátt svo ekki sé fastar að orði kveðið. Natalie er öflugur bloggari þar sem hún segir frá starfi sínu sem kennari. Það má sannarlega margt af henni læra.
 • Að hlusta á Haldísi Holst lesa upp ljóð eftir Warsan Shire um aðstæður flóttamanna.

Lærdómsríkast fyrir mig var

 • Að heyra hve aðstæður flóttabarna eru mismunandi víða um heim.
 • Að læra ný hugtök og skilgreiningar um fólk sem þarf af alls kyns ástæðum að yfirgefa heimili sín.
 • Að heyra Melissu Cropper varaformann kennarasamtakanna í USA segja frá því hvaða verkefni bættust við hjá samtökunum eftir kjör Trump. Áróður hans og fylgismanna hans einkennast af hatursáróðri og með áróðri þeirra hefur hatur verið “normaliserað”. Samtökin hafa hrint af stað vitundarvakningu meðal kennara og almennings undir slagorðinu Tell Trump to #StopTheHate. Hægt er að lesa frétt um vitundarvakninguna með því að smella hérna.
 • Að sjá greiningar Andreas Schleicher sérfræðings OECD á því hvernig aðstæður flóttamanna í móttökulöndum víða um heim hafa áhrif á það hvernig þeir ná að byggja upp líf á nýjum stað. Þar virðist viðurkenning á móðurmáli þeirra, aðstæðum og valdefling þeirra hafa mest áhrif.
img_1572

Kennararnir sem starfa með börnum og ungmennum á flótta

 • Að fá viðurkenningu á því enn og aftur að þegar kennslustundin er miðuð við þarfir og aðstæður hópsins hverju sinni næst árangur. Þar skiptir máli að kennarar finni að þeir hafi traust til að meta hvaða efni og aðferðir henta hópnum bæði í nútíð og til framtíðar. Um þetta voru kennararnir sem starfa með flóttamönnum sammála. Þá var ekki endilega verið að fylgja námskrá eða öðrum utanaðkomandi þörfum.
 • Í máli þessara kennara kom líka fram að tómstundastarf og óhefðbundið skólastarf var nauðsynlegt svo nemendum líði vel í skólanum og næðu árangri í námi og starfi.

Erfiðast þótti mér

 • Að sjá hve verkefnin eru mörg og aðstæður margra barna erfiðar.
 • Að kennaraskortur er stór hindrun í að börn á flótta fái þá menntun sem þau eiga rétt á.
 • Að finna smæð mína í þessum aðstæðum.
 • Að finna að það er svo lítið sem ég get gert annað en að vanda mig við það sem ég geri nú þegar og reyna eins og ég get að vekja aðra líka til umhugsunar og aðgerða.
 • Að finna út hvað það væri sem ég gæti lagt af mörkum og greina frá því fyrir framan myndavél til hvaða aðgerða ég ætlaði að grípa þegar ég kæmi aftur heim.
 • Að taka þátt í umræðuhópum á ensku þar sem fæstir þeirra sem þar voru höfðu ensku sem móðurmál. Það var mjög krefjandi en lærdómsríkt.

Skemmtilegast þótti mér

img_1550

Starfaði með þessum kennslukonum í umræðuhópi um starfsþróun kennara

 • Að kynnast fólki frá öllum heimsálfum og heyra um störf þeirra að málefnum flóttabarna.
 • Að finna að það er fjöldi fólks um allan heim sem er tilbúið til að leggja sitt af mörkum svo börn á flótta geti fengið þá menntun sem þau eiga rétt á.
 • Læra á appið þar sem öllu því  sem tilheyrði ráðstefnunni var safnað saman.
 • Að takast á við að finna mögulegar lausnir á viðfangsefni ráðstefnunnar.

Að lokum

Við berum öll ábyrgð á því að takast á við að finna lausnir og “nýja” framtíð fyrir fólk sem þarf af einhverjum ástæðum að yfirgefa heimaland sitt. Menntamálaráðherra Svíþjóðar, Gustav Fridolin orðaði það svo í lok ráðstefnunnar:

Þess vegna er ábyrgð allra mikil við að finna lausnir svo auðveldara verði að leysa verkefnin sem blasa við svo flóttafólk geti átt uppbyggilega framtíð á nýjum slóðum.

Aðrar samantektir eftir ráðstefnuna

Á Storify safnaði ég saman tístum ráðstefnugesta:

Á Google Photos safnaði ég saman myndunum sem ég tók:

Á heimasíðu EI er frétt um ráðstefnuna og þar er líka hægt að skoða upptökur frá henni.

Skráð á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi miðvikudaginn 23. nóv. 2016

Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged | Leave a comment

Elska qr kóða (og símann minn)!

Ég hafði keypt bæklinga í Danmörku í haust með alls konar hugmyndum til að perla. Í skólanum erum við að undirbúa jólamarkað og það vantaði hugmyndir að jólaperli fyrir nemendur. Í þessum bæklingum voru margar góðar hugmyndir og þá þurfti að koma þeim úr bókinni og á pappír svo nemendur gætu valið sér myndir til að fara eftir. Hefðbundna leiðin:

 • Er að skanna þær í ljósritunarvélinni
 • Prenta út í litaprentaranum
 • Plasta í plöstunarvélinni
 • Skera niður í skurðarhnífnum
 • Dreifa til nemenda
 • Passa uppá að týna ekki myndunum

Nýja leiðin sem mér hugkvæmdist í morgun var að nota símann minn:

 • Nota Office Lens appið í símanum til að taka myndir af blaðsíðunum í bæklingnum
 • Búa til albúm á Google Photos með myndunum af blaðsíðunum
 • Gera qr kóða með slóðinni inn á albúmið
 • Dreifa qr kóðunum til nemenda

Kostir nýju leiðarinnar umfram þá hefðbundnu:

 • Sparar mér tíma
 • Sparar pappír
 • Sparar blek í prentaranum
 • Sparar plastið í plöstunarvélinni
 • Minni hætta á að “allt týnist og dreifist um allan skóla”
 • Nemendur nota Ipada skólans til að komast inn á myndirnar og geta stækkað þær eftir þörfum á meðan þeir perla

Kóðinn góði!

Já, hvernig er hægt að elska ekki qr kóða? Eða símann sinn?

Ps. svo varð þessi til eftir að hafa safnað saman hugmyndum á Pinterrest og gert kóða líka á þá slóð. Og hver elskar ekki Pinterrest?

qrcode-37660925

Safn af jólaperli á Pinterrest

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged | Leave a comment

Enn er gagn og gaman á UTís2016

Á síðasta föstudag og laugardag (11. og 12. nóvember) tók ég þátt í UTís2016 á Sauðárkróki. UTís2016 eru vinnu- og menntabúðir um upplýsingatækni í skólastarfi. Þar koma saman kennarar og aðrir sem hafa áhuga á upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta er í annað sinn sem þessi viðburður er haldinn og sannarlega er vilji allra sem hann sóttu að hann verði endurtekinn. Um 80 manns sóttu UTís að þessu sinni og eru það um það bil 20 fleiri en í fyrra.

img_1432

Það vildi aftur svo heppilega til að við Lína vinkona fengum báðar pláss á UTís2016 og gátum aftur verið saman á herbergi og borið saman bækur okkur á marga vegu, ekki bara um kennslu og upplýsingatækni.

Í þessari færslu skrái ég eins og í fyrra það gagn og gaman sem ég hafði af vinnu- og menntabúðunum UTís2016:

Föstudagurinn 11. nóvember

10:10-10:30 Móttaka í Árskóla Sauðárkróki

10:30-12:00 Heimsókn í Árskóla – þátttakendur verða nemendur 

Á þessum degi lærði ég, gerði og datt mér í hug:

 • Ég sá hvernig hægt er að ganga hugvitsamlega frá Ipödum og hleðslusnúrum.
 • Ég lærði aðferð við að nota Ipada til kennslu í myndmennt, það er hægt að skapa með fyrirmynd í ljósmynd á skjá.
 • Heimsótti staði um víða veröld og fékk að sjá hvernig hægt er að nota sýndarveruleikagleraugu til að auðga kennslustundina og kveikju til ritunar
 • Fékk hugmynd að því að fá tækniteymið frá Árskóla í menntabúðir #eymenntar með gleraugun þeirra. Þetta verða bara allir að prófa!
 • Prófaði Sphero sem er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef prófað lengi. Lærði að samvinnan borgar sig og að mistökin eru til að læra af þeim. Datt í hug að þetta yrði dótið sem fullorðna fólkið í fjölskyldunni myndi leika sér með í jólaboði ársins. Smælkið er auðvitað velkomið í leikinn líka.
 • Vann með og kynntist fólki sem ég þekkti ekki fyrir.
 • Ákvað að kaupa meira dót fyrir Þelamerkurskóla.

12:00-13:00 Hádegismatur 

img_1392

Hvert tækifæri er notað til að miðla þekkingu og reynslu

 • Kynntist ThingLink á milli bita.
 • Heyrði um Makerspace.
 • Lína og Hulla sögðu mér meira og betur af Teachers Pay Teachers
 • Lína sagði mér frá framhaldsnáminu sínu í stærðfræði og kynningu sem hún hélt í náminu um bjargir kennara í stærðfræðikennslu.

13:00-14:00 Keynote/Vinnustofur

14:00-16:00 Vinnustofur – fyrri hluti

 • Ég lærði aðferð  (Grape Jam Walk?) við að deila áhyggjum og vandamálum og hvernig hægt er að fá hóp til að aðstoða við að leysa þau og efla tengsl innan hóps. Við umhugsun þá leynir aðferðin á sér. Ég er þegar farin að leita lausna á mínum áhyggjum.
 • Eins og í fyrra valdi ég að læra meira á Google Suite, Google Apps, Chromebooks og nýja Google Sites. Að þessu sinni voru það Hans Rúnar á Hrafnagili og Bergmann í Árskóla sem sáu um vinnustofuna.
  • Í fyrri hlutanum fékk ég að prófa Chromebooks og fékk hugmynd að því að kannski væri ekki svo vitlaust að “fá meira fyrir peninginn” með því að endurnýja tölvukostinn og kaupa þannig vélar.
  • Það eru nýir fídusar í Google Slides sem virkilega spara tíma.
  • Fattaði explore hnappinn í Google Slides, Google Docs og Google Sheets betur. Það er bara undravert hvað gervigreindin getur sparað tíma.
 • Ég kíkti á fleiri vinnustofur og fékk að prófa nýtt dót og fylgjast með. Þar sá ég hvernig hægt er að vera niðursokkinn í að þreifa sig áfram með nýja hluti.

16:30-19:30 Frjáls tími / afslöppun

 • Staðfesti að það er hægt að gera góð kaup í Skagfirðingabúð
 • Fundaði með #Eymenntarhópnum í heita pottinum við Hótel Tindastól og við lögðum línur fyrir framhaldið. Ræddum viðskiptahugmyndir nokkurra í hópnum sem enn eru iðnaðarleyndarmál.
 • Frétti af vefsíðu Spjaldtölvuverkefnisins í Kópavogi.

19:30-20:00 Fordrykkur í Árskóla

20:00-21:30 Hátíðarkvöldverður á Drangey Restaurant

 • Sat hjá kennara við Menntaskólann á Tröllaskaga og skipulagði í huganum skólaheimsókn starfsfólks Þelamerkurskóla í Fjallabyggð.

21:30-23:30 Hittingur þátttakenda á MicroBar

 • Ég gat ómögulega vakað lengur svo ég fór heim á hótel að hvíla mig.

Laugardagurinn 12. nóvember

Eftir góðan göngutúr með Línu á Vegagerðarhringum lærði ég, gerði og datt mér í hug:

Sá skemmtilega samsetningu stuttra myndbanda á Twitter í morgunsárið sem sýndi það sem við höfðum gert daginn áður og spurði Hönnu Rún sem það gerði hvað hún hefði notað til að búa það til.

Svarið kom um hæl á Twitter, RoadMovies.  Svona er #UTís2016!

10:00-12:00 Menntabúðir frá þátttakendum (2×50 mín)

 • Ég gaf mér loksins tíma til að prófa Micro Bit og lærði að nota það. Á Krakkarúv eru góðar leiðbeiningar. Núna fer kassinn með þeim af skrifstofunni minni og í hendurnar á nemendum.
 • Ég fékk að prófa að vera kennari og nemandi með sýndarveruleikagleraugunimg_1443
  • Ég kynntist smáforritum sem hægt er að nota með gleraugunum.
  • Ég var enn minnt á að tæknin ruggar gömlum viðmiðum um nám og kennslu. Nú er ekki nauðsynlegt að snúa fram og horfa á kennarann tala, heldur að fylgja örinni á myndinni í gleraugunum og horfa þangað!
  • Lærði að handleika þau og hvað skiptir máli í tengingum og fleiru.
  • Kynntist smáforritinu Blippbar sem samt hefur ekkert með gleraugun að gera.
  • Fékk staðfestingu enn og aftur hvað það er einfalt og skiptir miklu máli fyrir þróun hugmynda og áframhaldandi vinnu að setjast niður með hópi og fá að prófa sig áfram.

12:00-13:00 Hádegisverður á Drangey restaurant (Súpa og brauð)

 • Gekk frá því að það verði gleraugna- og tækjasmiðja á menntabúðum hjá #eymennt fljótlega.

13:00-15:00 Vinnustofur – seinni hluti (framhald frá föstudeginum)

 • Kynntist nýrri viðbót í Google Forms – formlimiter sem auðvitað einfaldar lífið og sparar tíma.
 • Kynntist Flubaroo og sá að tæknin getur sparað tíma við yfirferð prófa og hægt að nota hann þá í annað.
 • Lærði betur á Doctopus og Goobric og sannfærðist um að kennararnir í Þelamerkurskóla verða bara að kynnast þessu.
 • Flakkaði um Google Photos með Hans Rúnari. Var minnt á að það er í lagi að tæma símann sinn um leið búið er að hlaða þeim þangað. Kannski óþarfi að hafa 6000 myndir á símanum sínum.
 • Skoðaði og fékk aðeins og prófa nýja Google Sides. Greinilega miklar framfarir og umbætur.
 • Fékk umræðu og leiðbeiningar um hvernig væri hægt að standa að því að koma skóla inn í Google Suite. Það urðu góðar umræður um hvort ætti að fara “alla leið” eða hliðarleið.

15:00-16:00 Kaffi, kynning á afurðum, samantekt og slit 

Þá var komið að kveðjustund þar sem þess var heitið að halda áfram að vera í sambandi og styðja hvert annað í starfinu með að kveikja áhuga, innleiða, þróa og festa í sessi upplýsingatækni og sköpun í skólastarfi.

Samantekt

Það er erfitt að taka saman í fáum orðum hvaða áhrif viðburður eins og #UTís2016 hafa á þá sem taka þátt svo ekki sé talað um áhrifin til framtíðar á störf þeirra og samstarfsmanna þeirra. Fyrir mig eru það ómetanlegt að fá að taka þátt og fá að sjá hvernig eldmóður þessara kennara gerir skólastarf bæði meira skapandi og hvetjandi fyrir nemendur og kennara. Ég fullyrði að skólastarf er ríkara eftir #UTís2015 og #UTís2016. Það sanna m.a.:

 • umræðan á #menntaspjalli morgunsins á Twitter,
 • tístin sem þátttakendur sendu frá sér á UTís2016
 • myndirnar sem ég og Lína vinkona tókum
 • og frásagnir kennara á Twitter sem nú þegar eru farnir að nýta sér það sem þeir lærðu á UTís2016

Verði leikurinn endurtekinn er ég farin að hlakka til #UTís2017 og mun reyna að láta það ekki framhjá mér fara.

Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , , | 2 Comments

Miðlun reynslu

Ég fylgist með bloggi sem heitir Connected Principals og á dögunum var þar verið að fjalla um hvernig skólastjórnendur gætu miðlað reynslu sinni og þekkingu með því að blogga um starf sitt. Þar rak ég augun í setninguna:

You think you have nothing to say but you have a story to tell!

recite-4cirz7

Þessi setning hefur minnt á sig að undanförnu þar sem ég hef fylgst með stjórnendum reyna sig á því að tísta saman á ESHA ráðstefnunni og einnig á meðan ég hlustaði á fyrirlesara á málstofum ráðstefnunnar hvetja þátttakendur til að segja frá öllu því góða sem um er að vera í skólastarfi og hvernig kennarar og skólastjórnendur læra daglega af starfi sínu. Þannig fræðast aðrir um starfið og þeir sem skrá og miðla, ígrunda starf sitt með því að koma því í orð og deila ígrundun sinni. Og til viðbótar megi segja að starfsþróun stéttarinnar breiðist hraðar út en hún hefur nokkurn tímann haft möguleika á að gera vegna þess að einnig er hægt að miðla lærdómi sínum í starfi með því að segja frá honum í sérstökum hópum á Facebook eða tísta um einstök hugðarefni í starfinu og fylgjast líka með öðrum á Twitter í svipuðum pælingum.

Ég nýtti tækifærið á ráðstefnunni til að taka saman glósurnar mínar í eina litla glósubók á One Note. Áður en ég hélt af stað skipulagði ég hana miðað við dagskrá ráðstefnunnar og það sem ég hafði valið mér að hlusta á og taka þátt í. Hvert atriði fékk einn flipa og innan hans fengu fyrirlesarar blaðsíður. Svo fór að myrkrið í salnum þar sem aðalfyrirlestrarnir voru haldnir, varð til þess að ég notaði Twitter meira en glósubókina og stundum tók ég fleiri myndir en ég náði að setja jafnóðum inn á glósubókina. Enda varla hægt að nota dýrmætan tíma á fyrirlestrum til að föndra við slíkt. Ég gat samt safnað því mesta saman inn á glósubókina þegar heim var komið með því að:

 • Gera samantekt Twitterfærslna minna í Storify og setja samantektina á pdf-skjal (einn möguleiki Storify við að deila því sem þar er geymt) sem ég setti inn í glósubókina. Öðruvísi er erfitt að setja tíst inn í bókina.
 • Hlaða myndunum af símanum inn á albúm á GooglePhotos og setja hlekk af albúminu inn á viðeigandi stað í glósubókinni. Það var t.d. mjög handhægt eftir skólaheimsóknina. Inn á hverja mynd er svo hægt að glósa stutta lýsingu á því sem þar er, sjálfum sér og öðrum til gagns.

Á þessu lærði ég að:

 • Með One Note er auðvelt að nýta sér og tengja saman marga miðla, tæki og tól á netinu til að búa til rafræna glósubók í myndum og máli. Þannig er ég ekki með allt sem ég sé og skrái útum allt, t.d. á netinu, í tölvunni eða í símanum.
 • Það er svo auðvelt að miðla sögu sinni úr ferðinni með því deila glósubókinni rafrænt með öðrum á samfélagsmiðlum, bæði í heild sinni og einstökum blaðsíðum.
 • Það eru til ótal leiðir til að safna upplýsingum, geyma þær og miðla þeim. Það er bara að finna það sem  hentar sjálfum sér og tilefninu hverju sinni; stundum er það blogg, stundum er það Twitter, stundum skjal á Google Drive, stundum færsla á Facebook eða bara eitthvað allt annað.
Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , | Leave a comment

Samglósun

img_1256

Af hverjum lærir þú og hver er þín fyrirmynd? Úr fyrirlestri Zachary Walker

Á dögunum sótti ég ráðstefnu Samtaka skólastjórnenda í Evrópu. Ráðstefnan var haldin í Maastricht í Hollandi og yfirskrift hennar var Leadership matters! Á henni var fjallað um fjögur þemu, í aðalfyrirlestrum, á málstofum, í skólaheimsóknum og ekki síst í skemmtiatriðum:

 • Inspire and Innovate: 21. century leadership
 • Dream of the future: 21. century pedagogies
 • Global citizenship: 21. century competences
 • Well being for 21. century kids

Stór hópur íslenskra skólastjórnenda af öllum skólastigum sóttu ráðstefnuna. Í allt gæti ég trúað að þarna hafi verið um 70 manns frá Íslandi en heildarfjöldi ráðstefnugesta var sagður vera um 600 manns.

Það má alltaf velta því fyrir sér hvaða gildi og áhrif ráðstefnur af þessu tagi hafi fyrir einstaklingana og/eða hópana sem þær sækja. Að mínu mati hafa góðar ráðstefnur eins og ESHA ráðstefnunurnar að öllu jöfnu eru, nokkkurt gildi fyrir skólstjórnendur, bæði faglega og félagslega. Þannig hafa þær áhrif á þá sem hana sækja, meðal annars til að vekja þá til umhugsunar um eigið starf og það getur jafnvel orðið til þess að þeir breyti einhverju í starfi sínu. Eitt er víst að tengslanet flestra styrkist á ráðstefnum sem þessum.

Þegar ljóst varð að svo margir Íslendingar ætluðu á ESHA ráðstefnuna að þessu sinni datt mér í hug að hvetja þá til þess að nýta sér myllumerkið #esha_isl á Twitter til að tísta um það sem þeim þætti áhugaverðast á ráðstefnunni. Markmiðið með þessu var:

 • að fjölga í hópi skólastjórnenda sem nýta sér Twitter
 • að gefa skólastjórnendum raunhæft tækifæri til að sjá hve öflugur miðill Twitter getur verið
 • að flytja rauntímafréttir af ráðstefnunni
 • að safna saman rafrænum glósum íslensku þátttakendanna á einn stað
 • að eiga umræðuefni um ráðstefnuna á einum stað (rafrænt)

Það má segja að íslensku þátttakendurnir hafi tekið vel við sér, þeir tístu að jafnaði 130 tístum á dag þessa þrjá daga sem ráðstefnan var. Þannig söfnuðust saman glósur sem þátttakendur deildu með þeim sem voru á ráðstefnunni og ekki síst með þeim sem ekki voru á staðnum.

Eftir ráðstefnuna safnaði ég tístunum saman í tvær samantektir á vefsvæðinu Storify. Önnur náði yfir ferðalagið til Maastricht og fyrsta dag ráðstefnunnar en í hinni eru samantekt frá öðrum og þriðja degi ráðstefnunnar.

Með samantektunum verða til sögur af sameiginlegri upplifun hópsins sem hann getur nýtt til samræðu um lærdóminn af ráðstefnunni og jafnframt nýtt til að miðla til þeirra  sem ekki voru á staðnum á rauntíma.

Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , | 1 Comment

ESHA 2012 Mark van Vugt

Þar sem ESHA ráðstefnan er í komandi viku rifjaðist upp fyrir mér að einn af aðalfyrirlesurum ESHA ráðstefnunnar 2012 var Hollendingurinn Mark van Vugt og hann mun einnig tala á ráðstefnunni í Maasticht. Hérna fyrir neðan er pistill sem ég skrifaði upp úr fyrirlestri hans eftir heimkomuna 2012 og birtist hún þá á heimasíðu Skólastjórafélags Íslands:

Mark Van Vugt er professor í sálfræði við VU Háskólann í Amsterdam. Rannsóknir hans og skrif hafa birst í mörgum virtum tímaritum og einnig þeim sem teljast “poppvísindatímarit”, sjá: http://www.psychologytoday.com/blog/naturally-selected

Sérsvið Van Vugt er á sviði stjórnunar-/leiðtogafræða innan félagssálfræðinnar. Síðustu skrif hans (2012) og rannsóknir beinast að hegðun og samspili leiðtoga og fylgjenda þeirra. Þeir sem vilja kynna sér betur verk hans er bent á heimasíðuna www.professormarkvanvugt.com.

Hvers konar leiðtoga viltu fylgja?

Í upphafi fyrirlestrarins sýndi Van Vugt myndir af tveimur stjórnendum. Annan þeirra nefndi hann Larry og hinn John og sagðist gjarnan spyrja áheyrendur sína hvor þessara manna þeir vildu frekar vera. Báðir stjórnendurnir þykja hafa náð góðum árangri í störfum sínum. Larry á sportbíla, skútu og önnur eftirsóknarverð farartæki. Og í fréttum kemur fram að hann er nýlega kvæntur í þriðja sinn.

Á heimasíðu fyrirtækisins hjá John kemur í ljós að á síðasta ári fékk hann greiddan 1 dollara í arð af fyrirtækinu. Það var ekki vegna þess að fyrirtækið gekk illa heldur vegna þess að John segist ekki hafa þörf fyrir meiri peninga; hann eigi og hafi allt sem hann þurfi. Arður fyrirtækisins muni framvegis verða notaður starfsmönnum og viðskiptavinum til hagsbóta.

Van Vugt fullyrti að oftast vildu fleiri áheyrenda hans vera Larry. Van Vugt sagðist svo næst spyrja spurningar sem væri mikilvægari en sú fyrri: hvort myndir þú vilja vinna hjá Larry eða John? Hann sagði að þá snérist dæmið oftast við. Flestir vilja vinna hjá John.

Forysta skiptir máli

Forysta skiptir máli á öllum sviðum samfélagsins því bæði er til góð og slæm forysta. Það skiptir máli hver og hvernig er stjórnað, t.d. í menntun samfélagsins og hvort leiðtogar velja að leysa vanda með friði eða ófriði.

Van Vugt varar samt við ofmati á stjórnendum því þeim getur orðið á eins og öðrum og eru ekki allir starfi sínu vaxnir þó þeir hafi verið valdir til forystu og eigi sér marga fylgjendur.

Kenningin

Erindi sitt byggði Van Vugt á rannsóknum sínum sem hann hefur skrifað um í bókinni Naturally selected Hann bendir á að fljótlega (25 sekúndur) eftir að hópur hefur myndast hefur hann, án umræðu, valið sér hver sé sá sem hlustað verður meira á og muni leiða hópinn í verkefninu.

Maðurinn er í eðli sínu hópvera sem hefur umfram aðrar verur þróað með sér færni til að vera hluti af hóp. Hann getur bæði leitt hóp og verið fylgjandi í hópi. Samkvæmt Van Vugt er þetta hæfileiki sem maðurinn hefur þróað með sér frá örófi alda.

 1. Hann segir að heilabúið geymi tengsl um það hvers konar leiðtogum maðurinn fylgir miðað við í hvaða aðstæðum hann er þau verkefni hópurinn þarf að leysa.
 1. Einstaklingar innan hvers hóps hafa mismunandi markmið og ágóða af samvinnu hópsins. Árangur hópsins er undir því kominn hvernig einstaklingarnir innan hans koma sér saman um sameiginlegt markmið. Hvað ertu tilbúinn að láta mikið af hendi?
 1. Manneskjunni er eðlislægt að vera fylgjandi; að fylgja leiðtoga og að fylgja hópnum. Þá er mikilvægt að spyrja sig að því af hverju þú fylgir ákveðnum leiðtoga? Viltu sjálfur einhvern tímann leiða hóp? Viltu fá ákveðna vitneskju eða læra meira? Vera hluti af hópnum?Og síðan þarf að velta fyrir sér á hvaða hátt leiðtogi fær fylgjendur. Leiðtogar verða ekki til nema þeir afli sér fylgjenda. Samkvæmt Van Vugt skiptir það höfuðmáli fyrir framhaldið hvernig leiðtogar koma fram við sína fyrstu fylgjendur (að styðja þá og styrkja). Því það eru þeir sem munu afla hugmyndum leiðtogans fleiri fylgjenda svo úr því geti orðið fjöldahreyfing sem mun breyta einhverju fyrir hópinn.
 1. Frá örófi er lýðræði hópum eðlilegt; þ.e. að komast að sameiginlegri niðurstöðu svo hópurinn geti komist af. Innan hópa eru samskiptamynstur sem verða til þess að hópurinn velur sér leiðtoga og/eða stoppar þá af sem ekki geta orðið hópnum til heilla til framtíðar.Í frumstæðum hópum veljast einstaklingar til forystu út frá því hvað þeir geta og kunna svo þekking þeirra og færni geti orðið hópnum til framfara. Þar þekkist ekki að einn úr hópnum hafi alræðisvald yfir lengri tíma yfir hópnum.
 1. Vald yfir hópum á sér líka dökka hlið. Þ.e. þegar einstaklingi tekst að ná yfirhöndinni með valdi eða á kostnað annarra í hópnum eða annarra hópa. Það gerist oftast þegar hópurinn á í deilum innbyrðis eða á í útistöðum við annan hóp. Þ.e.a.s. aðstæður sem koma í veg fyrir að hópnum finnst hann komast sæmilega af. Þá getur misjöfnum foringjum tekist að afla sér fylgjenda vegna þess að aðstæðurnar kalla á foringja sem þykir hafa lausnir fyrir hópinn. Þetta gerist þrátt fyrir að hópurinn eigi að hafa innbyggt kerfi sem á að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst (dæmi: ýmsir einræðisherrar).
 1. Rannsóknir Van Vugt og félaga benda til þess að fólk velji sér leiðtoga út frá útliti þeirra og aðstæðunum sem þeir eiga að starfa í: á ófriðartímum virðist fólk velja sér karllæga leiðtoga en kvenlæga á friðartímum. Niðurstöðurnar benda til þess að staðalímyndirnar ráði meiru en við viljum trúa.
 2. Útgeislun (karisma) leiðtoganna verður m.a. til vegna orðsnilldar leiðtoganna. Þeir hafa hæfileika til að nema sameiginlegar þarfir hópsins og koma þeim í orð á þann veg að hópurinn finnur til samkenndar innbyrðis og við leiðtogann. Van Vugt benti á að í skólaumhverfinu (inni í kennslustofunni) væri þetta mikilvægur hæfileika.
 3. Staðalímyndir (byggðar á reynslu kynslóðanna) okkar um leiðtoga rugla okkur í ríminu. Niðurstöður rannsókna Van Vugt og félaga benda til þess að við tengjum saman hæfni leiðtoga og útlit þeirra, t.d. hæð. Það skipti kannski máli fyrr á öldum þegar afkoma hópsins byggðist á því hvort foringi hans var stór og sterkur. Það skiptir síður máli í samfélagi nútímans.

Hvað er hægt að nýta af rannsóknum Van Vugt í skólastarfi:

 1. Van Vugt sagði að rannsóknir hans bendi til þess að manneskjan ráði ekki enn við mjög stórar heildir. Og til að hópar nái sem bestum árangri þurfi að miða við að þeir séu ekki óviðráðanlega stórir fyrir þá sem í þeim starfa. Huga þarf að því að hóparinir séu ekki stærri en svo að þeir sem í þeim starfa nái að rækta félagstengsl innan hópsins. Á þann hátt tekst m.a. að þekkja og styrkja leiðtogana innan hópsins og að virkja þá þegar við á.
 1. Hlúa vel að fylgjendunum. Gefa rými fyrir það óformlega, samveru og skemmtanir.
 1. Láta ekki staðalímyndir ráða við val á leiðtogum. Rækta fjölbreytileikann.
Posted in Á ferð og flugi, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , | Leave a comment