Auglýsingasnepill verður vefsvæði

maelingar

Fyrir nokkru tók ég þátt í því að undirbúa ráðstefnuna Vegur til farsældar? Mat og mælingar á árangri skólastarfs. Þar sem nokkrar stofnanir komu að skipulaginu þótti vænlegt að finna leið til að búa til eina auglýsingu sem allar stofnanirnar gætu dreift á miðlum sínum og að án lítillar fyrirhafnar væri hægt að uppfæra auglýsinguna jafnóðum og upplýsingar um ráðstefnuna bærust undirbúningshópnum.

Þar sem ég hef kynnst Smore nokkuð vel til að búa til rafrænar auglýsingar stakk ég uppá því að hópurinn nýtti sér það kerfi. Það er skemmst frá því að segja að eftir því sem á undirbúninginn leið þróaðist litli rafræni snepillinn sem átti að vera auglýsing, yfir í að verða vefsvæði ráðstefnunnar með því að nýta með honum það sem Google Drive, Twitter og bein útsending hafa uppá að bjóða:

 • Upplýsingaskjöl ráðstefnunnar voru vistuð á Google Drive og hlekkjuð inn á auglýsinguna.
 • Skráning ráðstefnunnar fór fram í gegnum Google Forms og hlekkjað inn á hnapp á auglýsingunni.
 • Spurningar til umræðna í hópunum voru settar upp í Google Forms og hlekkjaðar inn á auglýsinguna. Skráningar hópanna voru svo gerðar öllum aðgengilegar að lokinni ráðstefnunni.
 • Búið var til myllumerki fyrir ráðstefnuna til að auðvelda fólki að tísta glósum sínum eða leggja fram spurningar til umræðu. Eftir ráðstefnuna var þeim safnað saman í eina “sögu“.
 • Ráðstefnunni var streymt í gegnum netið og upptakan síðan gerð aðgengileg á vefsvæði að henni lokinni.

Fyrir utan að þetta ferli staðfesti fyrir mér að rafræna umhverfið auðveldar samvinnu og styttir vegalengdir lærði ég:

 1. Að möguleikar rafræns umhverfis eru fleiri en augljóst er við fyrstu sýn.
 2. Að “ókeypis” kerfi á netinu hafa líka fleiri möguleika en augljóst er við fyrstu skoðun.
 3. Að rafræna umhverfið gefur möguleika á að fleiri en þeir sem staddir eru á viðburðum eins og þessari ráðstefnu, séu þátttakendur á rauntíma.
 4. Að rafræna umhverfið víkkar út hugtakið ráðstefnugestir, bæði á meðan á ráðstefnunni stendur og líka eftir að henni lýkur.
 5. Að rafræna kerfið gefur fleiri tækifæri en áður til að koma umræðum og niðurstöðum til skila og getur auðgað hana og haldið umræðunni lengur lifandi en áður var mögulegt.

Þetta ferli staðfesti fyrir mér enn og aftur að rafræna umhverfinu eru litlar skorður settar, helst að þær séu mannlegar. Ennfremur sannfærðist ég enn betur um að í skólastarfi þarf að fjölga stundum og verkefnum þar sem kostir þessa umhverfis eru nýttir.

Hérna er svo litli snepillinn sem varð vefsvæði og hefur verið skoðaður meira en 1200 sinnum.

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , | Leave a comment

Starfsmannafundir

Eins og aðrir fundir þá geta starfsmannafundir verið misjafnir og margs konar; tilkynningafundir, vinnufundir, matsfundir, lærdómsfundir, skemmtilegir, orkumiklir eða leiðinlegir, allt eftir eðli aðstæðna og markmiðs þeirra. 

Nú þegar skólaárinu lýkur eru sjálfsagt margir að líta yfir farinn veg og setja sér markmið og áherslur næsta vetrar. Það er alla vega meiningin í Þelamerkurskóla.

Um helgina datt mér í hug hvort orðaský gæti ekki verið niðurstöðublað úr hópumræðum starfsmannahópsins. Það er tölvuert langt síðan ég skoðaði síðast leiðir til að búa til orðaský. Ég hef í gegnum tíðina mest notað Word It Out af því mér finnst það aðgengilegt, smart og auðvelt. Eftir því sem ég kemst næst þá breytir það ekki stærð orðanna eftir því hve oft þau koma fyrir í textanum sem búa til skýið og í þessu samhengi fannst mér það skipta máli.

Til að skoða fleiri möguleika fann ég þessa grein sem segir frá átta möguleikum sem kennarar geta notað til að búa til orðaský.

 • TagCrowd býr til orðasúpu og sýnir bæði með tölum og stærð orðanna hve oft þau koma fyrir.
 • Wordclouds virðist taka tillit til þess hve oft orðin koma fyrir en mér sýnist að ef þau koma of oft fyrir þá sleppi forritið því að birta þau.
 • Tagul virðist vera einfalt í notkun og einnig er hægt að stilla sjálfur stærð orðanna í skýinu og það virðist stækka orðin eftir því hve oft þau koma fram í orðalistanum.

Cloud 2Fleiri prófaði ég ekki af listanum því ég var komin með það sem ég þurfti. En hugmyndin er að á síðasta starfsmannafundi vetrarins muni hóparnir að koma sér saman um fimm orð sem lýsa vetrinum. Í lok fundar segja hóparnir frá niðurstöðum sínum og á meðan skráum við aðstoðarskólastjórinn orðin jafnóðum niður í orðaský. Mér sýnist að mesta skemmtanagildið á fundinum verði með því að nota Tagul. Það gefur einnig möguleika á að sýna með litum, stærð orðanna og lögun þeirra hvað hópurinn var að hugsa í lok skólaársins. Myndin af því mun síðan verða leiðarljós starfsmanna Þelamerkurskóla næsta vetur.

Það má eflaust útfæra þetta á fleiri vegu, sérstaklega eftir að hópurinn hefur vanið sig á að nýta sér orðaský til að segja hvað fór fram í umræðum. Það má hugsa sér að hver hópur búi til eigið orðaský og geri svo grein fyrir því. En núna í fyrstu umferð held ég mig við að það að við búum til eitt ský úr öllum umræðunum.

 

 

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , | Leave a comment

I am now down to run

Í fyrrasumar fæddist sú hugmynd að fara með vinum okkar í vetrarleyfi til Flórída. Hugmyndin var í vinnslu og undirbúningi  í nokkrar vikur og varð að veruleika um miðjan apríl á þessu ári. Á meðan við vorum að skoða möguleika á fargjöldum og gistingu vaknaði sú hugmynd hjá mér að gaman væri að taka þátt í hlaupi á meðan á dvölinni stæði. Það gæti líka verið ágætis aðhald fyrir mig til að halda mér í hlaupaformi yfir veturinn. Ég leitaði á netinu og fann utanvegahlaup í þjóðgarðinum Jonathan Dickinson Park á vegum fyrirtækis sem heitir Down to run. Í þessu hlaupi var boðið upp á fjórar vegalengdir ásamt skemmtiskokki fyrir börn. Hægt var að velja á milli þess að hlaupa 50 km., hálft maraþon, 10 og 5 km. Ég skráði mig í hálft maraþon og fékk Halldór til að vera með.

Þjóðgarðurinn setur hlaupinu þau skilyrði að þátttakendur séu ekki fleiri en 400-500 og þeir mega ekki skilja örðu eftir sig á brautinni. Drykkjarglös og umbúðir eiga líka að vera í lágmarki og fengum við fyrirmæli um að vera með eigin flöskur í hlaupinu. Það kom svo á daginn að við hverja drykkjarstöð voru lítil glös úr endurvinnanlegum pappa.

Hlaupaleiðin. Það var hvetjandi en ekki letjandi að fara sömu leið til baka. Jók öryggið í lokin.

Þar sem hlaupið byrjaði eldsnemma morguns og íbúðin sem við höfðum leigt okkur í leyfinu var í tveggja tíma akstri frá hlaupinu pöntuðum okkur herbergi í tvær nætur á hóteli skammt frá Jonathan Dickinson Park. Þegar við komum þangað kom í ljós að þar voru aðeins sjö herbergi svo þar var rólegt og þægilegt umhverfi þó það stæði við brautarteina og hringtorg.

Þegar við höfðum tékkað okkur inn á hótelið seinni partinn daginn fyrir hlaupið ókum við að Jonathan Dickinson Park til að kanna aðstæður og hvort við værum ekki örugglega á “réttum” stað. Þegar við komum að hliðinu inn í garðinn var okkur sagt til vegar að rásmarkinu. Þegar við komum þangað voru tveir starfsmenn hlaupsins við undirbúning þess. Þeir sýndu okkur hvar við gætum sótt keppnisgögnin daginn eftir og sögðu okkur frá brautinni og hvað bæri að varast í hlaupinu. Þegar við komum aftur í bílinn vorum við sammála um að þetta hafi verið nauðsynlegur hluti af undirbúningnum. Alla vega róaði þetta nokkrar af taugunum sem höfðu, eins og gengur og gerist, farið að ókyrrast og efast dagana fyrir hlaup. Á leiðinni heim að hótelinu aftur fundum við amerísk/ítalskan veitingastað og lukum við “hleðsluna” fyrir hlaupið. Þar voru skammtarnir svo stórir að við fengum afgangana með okkur heim og það átti eftir að koma sér vel seinna.

Þrátt fyrir spenning vegna hlaupsins tókst okkur að sofa vel nóttina fyrir hlaupið og vorum komin á fætur fyrir klukkan fimm. Nokkur fiðrildi flögruðu um í maganum en ég taldi mér trú um að í þetta skiptið væri það til góða. Ég gæti verið viss um að komast vegalengdina því mér hafði tekist að fylgja æfingaáætluninni nokkuð samviskusamlega mánuðina fyrir hlaupið. Ég var hins vegar ekki viss um hvernig hitinn myndi fara með mig á meðan á hlaupinu stæði.

En einmitt vegna hitans var hlaupið ræst eldsnemma um morguninn. Fyrst voru 50 km. hlaupararnir ræstir kl. 6:30, svo hálfa maraþonið kl. 7:00 og svo koll af kolli þar til hlauparar í öllum vegalengdum voru komnar af stað. Við Halldór höfðum ákveðið að vera samferða í þessu hlaupi, fylgjast lítið með klukkunni og njóta þess að hlaupa utanvega í framandi umhverfi. Það var alveg þess virði því hlaupaleiðin var fjölbreytt og á henni gátum við hlustað á fugla- og skordýrahljóð sem við heyrum ekki venjulega á hlaupum okkar í Hörgárdal. Það var líka auðvelt að fylgja hægu tempói því öll umgjörð og þátttakendur hlaupsins voru afslappaðir og litu út fyrir að vera með í hlaupinu einmitt til að njóta þess og samveru hver við annan. En auðvitað mættum við líka hlaupurum á harðaspretti. Það var gaman að geta vikið úr vegi fyrir þeim og hvatt þá áfram.

Startið, sandöldurnar, hlaupafélaginn og hressir sjálfboðaliðar.

Á leiðinni voru troðnir slóðar sem minntu á línuvegina heima, einstígi sem minntu okkur á kindavegina, forarpollar, trébrýr og að ógleymdum sandöldunum um miðbik hlaupsins þar sem hægði heldur betur á hraðanum. Sandöldurnar þykja einkenni hlaupsins og hafði starfsmaður hlaupsins sagt okkur kvöldið áður að það væri á þessum kafla þar sem “it gets to you”. Það voru góðar upplýsingar því þá gátum við miðað orku-inntökuna við það.

Við höfðum tekið orkugel með okkur að heiman. Það gerðum við til að vera viss um að vera með það sem við höfum áður notað og að lenda ekki í stressi rétt fyrir hlaup við að leita að einhverju sem gæti komið að notum. Drykkjarstöðvar hlaupsins voru sjö og eiginlega hægt að kalla þær frekar orkustöðvar því þar var hægt að fá alls kyns orku eins og litlar samlokur með hnetusmjöri og sultu, M&M, salttöflur, gos, kaldan vatnsúða, hvatningu ásamt vatni og Gatorade. Við vorum sammála um að sjaldan hefðum við tekið þátt í hlaupi þar sem jafnvel væri hugsað um hlauparana vegna þess að sjálfboðaliðarnir sem voru á orkustöðvunum höfðu einlægan áhuga á því að hvetja þátttkendur hlaupsins.

Þó ekki væri á okkur þurr þráður varð hitinn okkur aldrei til trafala samt fór hann upp í 26 gráður en af og til var hægt að vera í skugga og stundum koma andvari á móti okkur ásamt því að sólin hélt sig til hlés hluta af leiðinni.


Eftir tæpar þrjár klukkustundir komum við í mark og hittum stuðningsliðið okkar, Önnu Rósu og Kidda sem samviskusamlega höfðu gætt þess að marklínan væri á sínum stað og að veitingatjaldið og tímatakan væri í lagi þegar við skiluðum okkur til baka. Það er mikils virði að hafa einhverja sem maður kannast við til að hvetja sig áfram síðustu 200 metrana og síðan til að fagna áfanganum með þegar honum er lokið.

Á heildina litið var þátttakan í hlaupinu skemmtileg reynsla í hlaupabankann og nýr vinkill á vetrarleyfi og sól á Florída.

Ánægð hlaupi loknu og með verðlaun fyrir annan besta tímann í flokki 50-59 ára kvenna.

Posted in Á ferð og flugi, Hlaupið og skokkað | Leave a comment

Ég vel vesenið!

Ég viðurkenni að það kemur fyrir að ég vakna fyrir allar aldir vegna þess að ég hef áhyggjur af því sem gerist eða gæti mögulega gerst eða ekki gerst eða ef til vill farið úrskeiðis í vinnunni minni. Stundum gerist þetta af því að í skólanum á að bregða út af vananum og það stendur til að gera eitthvað sem ekki telst til hefðbundins skólastarfs.

Margt í skólastarfi byggir á hefð og vanahegðun bæði fullorðinna og barna. Ég hef alltaf unun af því að sjá hve hratt og vel fyrstu bekkingar venjast hefðum grunnskólans. Undurfljótt læra þeir á stundaskrána sína og vita hvar þeir eiga að vera hverju sinni og til hvers er vænst af þeim. Á hverju ári dáist af hugrekki þeirra og aðlögunarhæfni.

Það er svo þegar þarf að brjóta upp stundaskrána og bregða út af daglegu starfi sem ég hrekk upp um miðjar nætur og velti fyrir mér hvort allt og allir séu tilbúnir í verkefnið og hvað gæti hugsanlega farið úrskeiðis. Þannig var það t.d. á dögunum á meðan á árlegum fjögurra daga skíðaskóla 1.-4. bekkjar Þelamerkurskóla stóð:

 • Eru allir græjaðir til að vera á skíðum? Hvað ef einhverjir hafa gleymt þeim heima?
 • Er rútubílstjórinn með allar tímasetningar?
 • Var búið að láta eldhúsið vita af breyttum matartíma og skíðanestinu?
 • Hvaða kennarar fara aftur með þeim uppeftir?
 • Hvaða foreldrar verða okkur til aðstoðar? Voru þeir búnir að fá allar tímasetningar?
 • Hvers konar skíðakennara fáum við núna?
 • Hvernig er veðurspáin? Þarf að fella niður eða fresta?
 • Verður skíðaleigan búin að taka fram græjurnar? Var annars búið að senda skíðaleigunni upplýsingar um alla sem þurfa að leigja búnað?
 • Hvað ef einhver meiðir sig?

Það er svo þegar ég er búin að fara nokkrum sinnum yfir marga ímyndaða tékklista og spurningar sem ég tek sjálfa mig á alvarlegt eintal:

Hvað viltu?

 • Viltu sjá krakka öðlast færni til að geta stundað almenningsíþrótt þegar fram í sækir?
 • Viltu sjá krakka læra að takast á við óöryggi í nýjum aðstæðum?
 • Viltu sjá krakka fyllast stolti af eigin framförum?
 • Viltu sjá krakka leiðbeina hverjum öðrum og læra saman við nýjar og ókunnar aðstæður?
 • Viltu sjá krakka glaða og rjóða í kinnum eftir lærdóm dagsins?
 • Viltu sjá krakka verða sjálfbjarga í skíðalyftum og brekkum?

Á hverjum morgni skíðaskólans er svarið við öllum spurningunum auðvitað já. Á hverjum morgni skíðaskólans verð ég þá að segja við sjálfa mig: Ef þú vilt þetta þá verður þú að græja allt það vesen sem þessu fylgir.

Og á hverjum morgni skíðaskólans og í hvert einasta skipti sem brugðið er út af hefðbundnu skólastarfi minni ég sjálfa mig á að það fylgir því heilmikið vesen og alls kyns stúss að fara út fyrir fjóra veggi skólastofunnar eða að skipuleggja skólastarf þar sem þarf að slíta sig frá bókum, borði, stól, bók og blýanti.

Skíðaskóli

Rauði hópur lærir að beita köntunum við að stjórna hraða.

Það er nefnilega þannig að það sem telst óhefðbundið skólastarf er alltaf vesen af því það er ekki innan venjubundins dagskipulags. Og vilji maður mjaka skólastarfinu út fyrir þennan vana sem því miður byggir enn á þröngum skilgreiningum á námi þá hefur maður valið vesenið.

 

Posted in skólastjórnun | Tagged , | Leave a comment

Gæðastarf og fagmennska

Um þessar mundir lesa þau sem sitja í framkvæmdastjórn skólamálaráðs KÍ bókina Flip the system, changing education from the ground up. Bókin er greinasafn sem er ritstýrt af Jelmer Evers og René Kneyber. Í hana skrifa kennarar og aðrir sérfræðingar í menntamálum um áhrif miðstýrðra breytinga stjórnvalda út frá hugmyndafræði GERM (e. Global Education Reform Movement) á menntakerfi. Pasi Sahlberg kynnti hugmyndafræði GERM á ráðstefnunni Kennarar framtíðarinnar sem haldin var í Reykjavík í ágúst 2014. Þar kom fram að þegar menntastefnu er breytt í anda GERM þá bera breytingarnar keim af áherslum frjálshyggjunnar um mælingar á afköstum og skilvirkni. Þegar stjórnvöld og önnur öfl hafa viðmið GERM til hliðsjónar við umbætur á menntakerfinu má rödd kennarastéttarinnar um gildi og gæði menntunar sín lítis. Þá er fremur litið á kennara sem tannhjól í gangvirki menntakerfisins sem er ætlað að fylgja sannreyndum kennsluaðferðum til að ná mælanlegum markmiðum sem aðrir en þeir sem starfa innan menntakerfisins hafa sett.

flip the system

Líkan Flip the system (ísl. hvolfum kerfinu)

Greinasafninu er ætlað að vekja kennararstéttina til umhugsunar um þessar aðstæður og að valdefla hana til breytinga. Rauði þráður bókarinnar (Flip the system) er að kennarar verði sér meðvitaðir um stöðu sína í þessum breytingum og sameinist sem fagstétt um að láta rödd sína heyrast og að fagmennskan verði uppspretta og hreyfiafl breytinganna í stað viðbragða við ytri áreitum.

Það kom m.a. í minn hlut að lesa viðtal René Kneyber við Thijs Jansen. Árið 2005 gaf Thijs Jansen ásamt öðrum út greinasafnið Professional Pain: Why Holland isn´t working. Í greinasafninu tæptu höfundar á efni sem þeim þótti lítið vera rætt meðal stjórnvalda og kennara þar í landi. Í bókinni kom fram að kennarar í Hollandi hefðu orðið fórnarlömb stjórnvalda sem höfðu sjónarmið markaðarins að leiðarljósi. Af menntakerfinu var krafist aukinna afkasta og meiri skilvirkni. Breytingarnar voru svo gerðar án mikils samráðs við kennara sem fagsétt.

Frá útkomu bókarinnar hefur Thijs Jansen þróað sjónarhorn sitt á þessum aðstæðum enn frekar; frá því að trúa því að fagstéttin sé viljalaust fórnarlamb til þess að líta svo á að kennarar séu til viðbótar fórnarlömb sjálfskapaðra aðstæðna. Stéttin hefur sjálf valið að leggja áherslu á kaup og kjör og umræðu um starfsaðtæður án þess að ræða sín á milli og að bjóða öðrum í samtal um gæði og gildi kennarastarfsins og menntunar. Jansen nefnir þessar aðstæður (sjálf)-valinn þrældóm.

Að mati Jansen fannst honum bókin taka til umfjöllunar málefni sem fáir þorðu þá að tala um og þá sérstaklega innan stjórnmálanna, þ.e. gæði skólastarfsins. Hann vill meina að það sé vegna þess hve miklu auðveldara sé að viðhalda orðræðunni um mælanlegar afurðir, starfsaðstæður og peninga en að tala um gæði starfsins.

Thijs Jansen fullyrðir að það sé mjög erfitt fyrir hvaða fagstétt sem er að koma sér saman um hvað sé gæðastarf og hvað ekki. Hann nefnir að mælingar á þröngum og afmörkuðum sviðum menntunar eins og OECD stundar með PISA séu dæmi um utanaðkomandi mælingar á menntakerfum sem hafi of mikil áhrif og þar með völd á hendi. Máli sínu til stuðnings nefnir Jansen John Dewey sem hefur sagt að það sé ekki rétt að byggja mælingar á starfsgreinum á einingum sem ekki eru hluti af sjálfu starfinu.

Thijs Jansen vill meina að fagmennirnir sjálfir eigi að meta og setja viðmið um hvað sé gæðastarf og hvað ekki. Andhverfa þess sé þegar stjórnvöld og jafnvel sumir fagmenn trúi því að “sá sem borgi ballið” eigi að ráða taktinum og hvernig dansað sé á ballinu. Hann nefnir sem dæmi að stundum sleppi stjórnvöld takinu og aðgreini innihald og aðferðir með því að ákveða hvað eigi að fara fram en gefa kennurum svo frelsi til að velja aðferð að settu marki. Að hans mati er það hlutverk stjórnvalda miklu fremur að styðja við fagstéttir og láta þeim eftir að velja bæði innihald og aðferðir starfsins.

Að mati Thijs Jansen er það heiður og virðingarstaða að geta kallað sig fagmann og til að svo geti orðið hafi kennarinn ákveðnum skyldum að gegna gagnvart starfinu. Forsenda þess að fagmennska þrífist í skólastarfi sé að kennarar hafi frelsi til að velja aðferðir og innihald starfsins en því fylgi jafnframt sú ábyrgð að geta fært rök fyrir vali sínu.

Jansen leggur áherslu á að fagmennskan eflist í samfélagi fagmanna og segir kennara hafi skyldu til að styðja og hvetja hvern annan í starfi. Hann nefnir jafnframt þrjú meginatriði sem sérhver kennari beri ábyrgð á að fylgja til að efla eigin fagmennsku og þar með stéttarinnar í heild.

 1. Í samstarfi við aðra fagmenn ætti sérhver fagmaður að viðhalda fagmennsku sinni með sífelldri og sjálfsprottinni starfsþróun.
 2. Að vera stoltur af starfi sínu og einnig starfi kollega sinna með því að hvetja þá og vekja athygli annarra á störfum þeirra. Í þessu samhengi bendir Thijs á að hver og einn þurfi að feta meðalveginn milli sjálfshóls og auðmýktar.
 3. Það er lítill vandi að vera stoltur af starfi sínu en viðurkenningu, heiður og sóma fyrir starf sitt þarf að vera verðskuldað. Það er undir fagmennsku hverrar stéttar komið, þ.e. hvernig hún eflir og fóstrar gæði starfsins, að sækja sér viðurkenningu samfélagsins fyrir störf sín.

Greining Thijs Jansen og félaga á aðstæðum í Hollandi á undanförnum áratug getur einnig átt við íslenskan veruleika og vekur upp spurningar um hvernig kennarar hér á landi geta aukið umræðu og eigin vitund um fagmennsku starfsins og þannig haft áhrif á starfsaðstæður sínar og gæði menntunar.

Posted in Að láni frá öðrum, skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged | Leave a comment

Yfirlit ársins 2015

Word Press gengið hefur tekið saman yfirlit yfir bloggið og virkni þess. Ljóst er að handavinna og eldhússtúss hafa yfirhöndina. Ég hafði lagt mig sérstaklega fram um að skrifa pistla um starf mitt á þessu ári. Aðeins einn af þeim kemst á blað, enda minni markhópur heldur en sá sem hefur áhuga á prjónaskap, hekli og eldamennsku. Það sem gleður í samantekt Word Press er fjölgun heimsókna frá byrjun bloggsins frá því það var stofnað fyrir þremur árum: Fyrsta árið var litið 3439 sinnum  þangað inn, annað árið 8997 sinnum og þriðja árið (2015) 13.648 sinnum; eða eins og Word Press orðar það, fimm sinum uppselt inn í Óperuhúsið í Sidney!

Markmið næsta árs er að halda áfram að skrifa inn á bloggið, bæði um starf mitt og öll hin áhugamálin.

Here’s an excerpt:

The concert hall at the Sydney Opera House holds 2,700 people. This blog was viewed about 14,000 times in 2015. If it were a concert at Sydney Opera House, it would take about 5 sold-out performances for that many people to see it.

Smelltu hérna til að skoða yfirlitið í heild sinni.

Posted in Uncategorized | Leave a comment

Sykurbrúnaðar möndlur

IMG_2382

Sykurbrúnaðar möndlur á öllum stigum

Á Mörkinni eru brenndar möndlur brúnaðar í hrásykri og kanil ómissandi á aðventunni fyrir utan að vera tilvaldar til að gleðja vini og vandamenn.

Mig minnir að ég hafi fundið þessa uppskrift á læknabiðstofu fyrir nokkrum árum þegar ég fletti þar gömlu dönsku blaði. Það var áður en ég fór að nota símann til að taka myndir af öllu sem ég þarf að muna. Ég hripaði uppskirftina á umslag sem ég var með í veskinu og hef síðan gert hana margoft á hverri aðventu og aldrei er til nóg.

500 g möndlur með hýði

Þær eru settar í 200 gr heitan ofn í 10-15 mínútur. Hræra í þeim alla vega einu sinni á meðan þær eru í ofninum. Passa að þær dökkni ekki of mikið.

130 g hrásykur (í gömlu uppskriftinni eru 150 g af hvítum sykri)

Sykurinn er hitaður (ekki að bráðna alveg í karamellu) á pönnu við vægan hita. Ef notaður er of mikill hiti verða þetta að karamellu og þá er erfiðara að fá möndlurnar “hrímaðar” af sykrinum.

2 tsk kanill

Bætt á pönnuna með sykrinum og hrært í á meðan sykurinn hálfbráðnar.

Þegar möndlurnar eru orðnar heitar í ofninum er þær teknar út úr honum og hellt saman við hálfbræddan kanilsykurinn á pönnunni. Hrært í öllu saman þar til möndlurnar hafa blandast vel saman við sykurinn. Þá er 0,5 dl af vatni bætt út á pönnuna og hrært í þar til möndlurnar eru orðnar hrímaðar af sykrinum (vatnið gufað upp og pannan orðin þurr). Þetta getur tekið smá stund og munið að hafa hitann vægan og vera þolinmóð.

Möndlunum er þá hellt af pönnunni og látnar kólna á smjörpappír. Líka hægt að borða þær volgar og sumir geta ekki beðið og borða þær beint af pönnunni.

IMG_8882

Njótið sem allra best

 

Posted in Matarstúss | Tagged , , | 3 Comments

Borðtuskuæðið

Borðtuskupakkar

Ekki þær fyrstu og ekki þær síðustu sem urðu til á ferð og flugi.

Í meira en eitt ár hef ég verið með heklunál og garndokku í veskinu svo ég geti gripið í borðtuskuhekl þegar færi gefst og ég sé að þannig er það hjá fleirum. Eiginlega má segja að borðtuskuæði hafi gripið um sig hjá þeim sem á annað borð byrja á þessu enda er auðvelt að smitast af þessari iðju. Til marks um þetta veit ég um tvo hópa á Facebook þar sem hægt er að skiptast á hugmyndum, sýna hvað er á prjónunum eða nálinni og fá leiðbeiningar og hrós. Annar hópurinn heitir Brjálaðar borðtuskur og hinn Borðtuskurnar okkar.

Það er ekki bara á Facebook sem hægt er að ná sér í uppskriftir. Á Pinterrest og víðar á netinu er hægt að verða sér úti um hugmyndir. Þar sem ég hef líka gaman að því að vafra á netinu rakst ég fyrr á þessu ári á uppskriftir að tuskum þar sem bara eru notaðir fastapinnar en á þrjá mismunandi vegu. Þar sem plögg úr pastapinnum eru fastari og þéttari í sér en þegar notað er annað hekl er betra að nota annað hvort grófari nál eða grófara garn en venjulega. Þegar ég prófaði þessa uppskrift valdi ég bæði ögn grófara garn og heklunál sem er hálfu númeri stærri en ég nota venjulega.

Á Akureyri er handavinnubúðin Quiltbúðin sem selur garn, efni og alls kyns áhöld og fylgihluti fyrir handavinnuna. Þar get ég alltaf fundið það sem mig vantar og ef það er ekki til í búðinni er þar alltaf hægt að fá hjálp við að finna annað sem kemur í staðinn. Þegar ég ákvað að prófa fastapinna-tuskurnar keypti ég þar sprengt akrylblandað bómullargarn sem heitir Belice og er frá Katia. Það er allt í lagi að þvo það á 60° en ég hef ekki prófað að sjóða það. Til að hekla fastahekl úr þessu garni notaði ég heklunál nr. 3,5.

Á öllum tuskunum fitjaði ég upp 52 loftlykkjur (hægt er að stækka eða minnka tuskuna/klútinn með því að fækka eða fjölga lykkjum, ath. fitja upp heila tölu af loftlykkjum) og áður en ég byrjaði á mynstrinu heklaði ég þrjár umferðir með venjulegum fastapinnum. Allar umferðirnar byrjaði ég síðan og endaði á þremur fastapinnum. Síðustu þrjár umferðir hverrar tusku eru venjulegir fastapinnar. Þá myndast kantur utan um tuskuna sem rammar mynstrið inn. Einnig er hægt að gera kant á tuskurnar eins og segir í upphaflegu uppskriftinni.

Skammstafanir:

fp = fastapinni

ll = loftlykkja

ll-bil = loftlykkjubil

Tuska nr. 1 – Gleðipinninn:

tuska1_7966

Gleðipinninn

Fyrsta umferð: Í aðra lykkju frá nálinni er gerður einn fastapinni, síðan *ll, sleppa (hoppa yfir) einn fp, einn fp í næstu lykkju*. Endurtakið frá * til * út umferðina.

Önnur umferð: Gerið tvær ll og snúið við. Sleppið (hoppið yfir) fyrsta fp síðustu umferðar og í næsta ll-bil gerið þið einn fp, *gerið eina ll, sleppið (hoppið yfir) næsta fp og gerið einn fp í næsta ll-bil*. Endurtakið frá * til * út umferðina þar til ykkur finnst tuskan vera orðin nógu stór.

 

 

Tuska nr. 2 – Blómapinninn:

tuska3

Blómapinninn

Fyrsta umferð: Gerið 2 fp í aðra lykkju frá nálinni, sleppið (hoppið yfir) einn fp, *gerið 2 fp í næsta pinna, sleppið (hoppið yfir) einn fp*. Endurtakið frá * til * út umferðina.

Ath. í umferðunum sem eftir eru heklið þið í bilið sem myndast á milli fp tveggja sem þið gerðuð í umferðinni á undan. Þannig myndast mynstrið. 

Önnur umferð: Gerið eina ll og snúið við. Sleppið (hoppið yfir) fyrstu lykjunni, gerið einn fp í næsta bil, *sleppið (hoppið yfir) eina lykkju og gerið tvo fp í næsta bil*Endurtakið frá * til * út umferðina og þar til ykkur finnst tuskan vera orðin nógu stór.

Tuska nr. 3 – Stjörnupinninn:

tuska2

Stjörnupinninn

Þetta mynstur myndast með því að við stingum heklunálinni til skiptis í aftari lykkju fastapinnans og fremri lykkju næsta fastapinna.

Hvort sem maður gerir kant úr fastapinnum eða ekki þá þarf að byrja þessa tusku á að gera eina umferð með venjulegum fastapinnum.

Fyrsta umferð: Einn fp í aðra lykkju frá nálinni og endurtekið út umferðina.

Önnur umferð: Gerð eina ll og snúið við. *einn fp í aftari lykkju (band) fp frá síðustu umferð, einn fp í fremri lykkju næsta fp*. Endurtakið frá * til * út umferðina og þar til ykkur finnst tuskan vera orðin nógu stór.

Í fyrstu umferðunum þarf stundum að snúa tuskunni við til að sjá hvort er fremri og hvort er aftari lykkjan svo kemst þetta í vana og myndar fallegt “tusku-mynstur”.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun.

Posted in Að láni frá öðrum, Á ferð og flugi, Handavinna | Tagged , , , | Leave a comment

Gagn og gaman á UTís2015

Á síðasta föstudag og laugardag (6. og 7. nóv. 2015) var ég svo heppin að fá að taka þátt í UTís2015 á Sauðárkróki. UTís2015 voru vinnu- og menntabúðir um notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þar komu saman kennarar og aðrir sem hafa áhuga á upplýsingatækni í skólastarfi. Snemma í haust barst boð um þátttöku og mér skilst að tvisvar sinnum hafi verið hægt að fylla þau pláss sem voru í boði. Eðlilega stýra laus gistirými og önnur aðsta á staðnum þeim fjölda sem getur sótt vinnu- og menntabúðirnar en 63 sóttu hana.

ingileif og LinaSvo heppilega vildi til að við Lína vinkona sóttum báðar um að koma á UTís og fengum báðar pláss og auðvitað byrjaði föstudagurinn á því að taka af okkur sjálfu og segja öllum frá því á samfélagsmiðlum að við værum núna loksins aftur saman á skólabekk. En það gerðist síðast þegar við vorum í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Við mættum auðvitað á fimmtudagskvöldinu og náðum gæðastund á hótelherberginu með rauðvíni, vinkonuspjalli og hekldótinu.

Í þessari færslu skrái ég það gagn og það gaman sem ég hafði af vinnu- og menntabúðunum UTís2015:

Föstudagurinn 6. nóvember

10.10-10.30 Móttaka í Árskóla á Sauðárkróki
10.30-12.00 Heimsókn í Árskóla

Í fyrri hluta þessa dags lærði ég, gerði og datt mér í hug:

 • Sá hvernig hægt er að ganga snyrtilega frá spjaldtölvum.
 • Ræddi við kennara á yngsta stigi um notkun spjaldtölva og smáforrita í íslensku og ensku.
 • Fékk hugmynd að heimsókn kennara úr Þelamerkurskóla til þessa kennara til að fylgjast með og ræða við um spjaldtölvur og smáforrit á yngsta stigi.

12.00-12.45 Hádegismatur í Húsi frítímans (Sushi/Mexíkósk vefja)
12.45-13.45 Vinnustofa um markmið og tækni (Ingvi Hrannar) – Hús frítímans

Í þessum hluta dagsins:

 • Lærði ég fjögurra skrefa aðferð í hópastarfi sem hægt er að nýta til þess að skipuleggja t.d. þemadaga.
 • Vann ég með mörgum sem ég hafði ekki unnið með áður því okkur var róterað á milli borða í hverju skrefi vinnuaðferðarinnar.
 • Kynntist ég fólki sem ég hafði bara séð á t.d. Twitter áður.
 • Fékk ég hugmynd sem ég gæti útfært næst þegar kennarhópurinn í Þelamerkurskóla þarf að skipuleggja sameiginlega þemadaga.

14.00-16.30 Vinnustofur – fyrri hluti

-iBooks Author (Guðný Sigríður og Bergmann)
-Nearpod (Ingvi Hrannar)
-GAFE – Google Apps For Education (Hans Rúnar og Álfhildur)
FabLab (Valur Valsson, verkefnastjóri hjá NMÍ)

Í þessum hluta valdi ég að kynnast GAFE, Google Apps For Education:

 • Ég nota Google Drive og því sem fylgir nokkuð mikið en er aldrei viss um að ég viti hvað það hafi upp á að bjóða sem gæti nýst mér betur í skólastarfi og þess vegna valdi ég mér þessa vinnustofu. Ég sá fram á að þarna hefði ég tækifæri til að sökkva mér í viðfangsefnið með leiðsögn þeirra sem vita meira um það.
 • Ég hafði áður skráð Þelamerkurskóla inn á Google Classroom og kennarar höfðu skráð þangað inn niðurstöður leshópa en meira hafði ég ekki gert við þann aðgang.
 • Vinnustofan fór hægt af stað og þröng var á þingi því margir höfðu greinilega áhuga á þessu vef- og gagnaumhverfi.
 • Ég komst inn á nemendaaðgang og skoðaði umhverfið aðeins.
 • Nokkrar spurningar um áframhaldið hjá Þelamerkurskóla í Google Classroom vöknuðu sem ég vonaði að ég fengi svör við daginn eftir.

16.30-19.30 Frjáls tími (Sund á Hofsósi fyrir þá sem vilja)

 • Við Lína nenntum ekki að aka á Hofsós til að fara í sund heldur fórum í Skagfó og keyptum okkur jólakjólana. Nú mega jólapeysurnar fara að vara sig!

jolakjolar

19.30-20.00 Fordrykkur í Árskóla
20.00-21.30 Hátíðarkvöldverður á Drangey restaurant
21.30-23.30 Hittingur þátttakenda á MicroBar

 • Ég sat hjá fólki sem ég hafði ekki kynnst áður og ræddi ýmislegt bæði gagnlegt og skemmtilegt. Það var samt ekki allt um tölvur og tækni í skólastarfi!
 • Ég gekk frá því að tveir kennarar kæmu með kynningu á þriðju menntabúðir Eymennt í Þelamerkurskóla eftir tíu daga.
 • Á MicroBar voru miðar á víð og dreif með QR kóðum. Bak við kóðana voru textar um fólkið sem stóð að UTís2015. Þá var sáð fræi sem ég gat nýtt mér á sunnudeginum.

Laugardagurinn 7.nóvember

10.00-12.00 Menntabúðir frá þátttakendum (2×50 mín.)

20151107_100235

Eins og sjá má var erfitt að velja sér menntabúð því margt áhugavert var í boði.

20151107_100130

Myndir fengnar að láni frá Svövu Pétursdóttur

 • Ég valdi að hlusta á Guðjón Hauk segja frá því hvernig Menntaskólinn á Akureyri hefur innleitt og nýtt sér Offiice365. Þar eru greinilega margir fídusar sem minna nokkuð mikið á Google Classromm og því sem fylgir Google Drive.
 • Mér datt í hug hvort væri möguleiki að halda sams konar kynningu á menntabúðum Eymennt í Þelamerkurskóla eftir tíu daga.
 • Í seinni hlutanum hlustaði ég á Maríu Valberg skólastjóra Grunnskóla Önundarfjarðar á Flateyri segja frá Mystery Skype. En það er námsleikur sem nemendahópar leika í gegnum Skype við aðra nemendahópa einhvers staðar annars staðar í heiminum.
 • Handsalaði ég Mystery Skype bekki við tvo kennara og ætlum við að prófa þetta eftir áramót.
 • Gekk ég í hóp á Facebook þar sem er fólk sem var á UTís2015 og hefur áhuga á Mystery Skype.
 • Kom pakka til mömmu á Ísfirðing sem var á UTís2015.
 • Ég missti af “dótadegi” hjá tækninördum vinnu- og menntabúðanna. Þar sýndu menn alls kyns dót sem gerir kennsluna líflega og opnar fyrir fleiri víddir en bók og skjár. Vona að mér gefist aftur tækifæri í framtíðinni til að kíkja á menntabúð af þessu tagi.

12.00-13.00 Hádegisverður á Drangey restaurant (Súpa og brauð)

 • Borðaði með Árna Heiðari ömmustrák í Bakaríinu á Sauðárkróki því hann var á Sauðárkróki með mömmu sinni og pabba.
 • Frétti hjá ömmu og afa Árna Heiðars sem búa á Sauðárkróki og eru líka hlauparar að hringurinn sem ég hafði hlaupið um morguninn gengur undir nafninu Vegagerðarhringurinn.
 • Gekk frá því við þriðja kennarann að hann yrði með kynningu á menntabúð Eymennt eftir tíu daga.

13.00-15.00 Vinnustofur- seinni hluti (áframhald frá föstudeginum)

 • Þá var það GAFE aftur og í þessari lotu gafst tækifæri til að prófa sig áfram með verkfærin.
 • Ég æfðist betur í að setja inn verkefni, setja viðbætur á Sheets og Google Chrome (Doctopus og Gobrics) svo hægt sé að fara yfir verkefni á vefnum. Það er snilld að sjá hvernig hægt er að koma bæði leiðsögn og mati fyrir á einu og sama skjalinu og deila því samstundis með nemendum sínum.
 • Ég lærði hvernig ég get skoðað breytinga-skýrslu skjals og séð hvernig og hvenær nemendur hafa verið að vinna í skjalinu.
 • Ég sá hvernig viðmót Google Classroom er hjá nemendum þegar þeir fá verkefnin, vinna í þeim, skila þeim og hafa fengið umsögn kennara.
 • Ég fann á eigin skinni hvernig það hjálpar við lærdóminn að leiðbeina öðrum strax eftir að ég hafði sjálf fengið nákvæma leiðsögn.
 • Var staðráðin í að fá kynningu á Google Classromm fyrir kennarana í Þelamerkurskóla og að hvetja einhvern þeirra til að prófa Google Classroom.

15.00-16.00 Kynning á afurðum, samantekt og slit

 • Tók í fyrsta skiptið þátt í tíst-session þar sem allir þátttakendur tístu í nokkrar mínútur um UTís2015.
 • Gerði helgarinnkaupin í Skagfó eftir sms frá Halldóri.

Sunnudagurinn 8.nóvember

qr kodar

 • Byrjaði daginn á að búa til QR-kóða með skilaboðum vegna baráttudags gegn einelti. Skilaboðin eru um vináttu, Vinaliðaverkefnið og eineltishring Olweusar. Ætla að hengja það upp í skólanum á morgun. Ég notaði þetta svæði til að búa til kóðana, einfalt og þægilegt en bara hægt að gera fimm sinnum kóða án þess að borga. Ég gaf mér ekki tíma til að leita að einhverju öðru þar sem ég gæti gert fleiri án þess að borga. Nú hef ég borgað 5 sterlingspund fyrir 100 kóða. Það kemur örugglega einhvern tímann að góðum notum.
 • Eftir birtingu þessa pistils lærði ég af konu á Twitter að það er einfalt og ókeypis að nota þetta til að búa til QR kóða.
 • Í hlaupatúr dagsins fékk ég hugmynd að  menntabúð um notkun QR kóða í námi og kennslu sem væri hægt að halda í menntabúðum Eymennt eftir tíu daga. Ef enginn gefur sig fram til að stýra slíkri menntabúð væri hægt að láta fólk sem mætir á þá menntabúð skipta með sér að plægja sig í gegnum pistil Salvarar Gissurardóttur um notkun QR kóða í námi og kennslu og síðan að miðla sín á milli að hverju þeir komust.
 • Skráði þennan pistil og gat ekki komist að því hvort hefði verið meira af gamni eða gagni á UTís2015. Alla vega er ljóst að ég mun reyna að láta UTís2016 ekki fram hjá mér fara, verði það að veruleika.
Posted in Á ferð og flugi, Starfsþróun | Tagged , , , , | 6 Comments

Rauntímafréttir og söguskráning

img_5076

Samskiptamiðlar gefa marga möguleika fyrir skóla til að senda frá sér rauntímafréttir. Í Þelamerkurskóla höfum við notað bæði Facebook síðu skólans og einnig Twitter-svæði hans. Í þessari viku (26.-30. okt.) eru nemendur 6. og 7. bekkjar í skólabúðunum á Reykjum og við höfum nýtt okkur Twitter til að koma rauntímafréttum frá dvölinni til foreldra og annarra til að fylgjast með. Við höfum líka sett nokkrar færslur inn á Facebook síðu skólans. Það sem mér finnst Twitter samt hafa framyfir Facebook er að mér finnst fljótlegra að ná sambandi og Twitter er einfaldari í notkun en Facebook og þar sem netsamband er ekki mjög öflugt hérna í Hrútafirðinum er þessi leið sjálfvalin.

Til að gera tístin aðgengileg öllum sem vilja fylgjast með höfum við sett glugga á forsíðu heimasíðunnar sem sýnir það sem gerist á Twitter-svæði skólans og gefið foreldrum slóðina og umræðuþráðinn í tölvupósti áður en lagt var af stað. Samt þarf fólk ekki að vera Twitter notendur til að geta fylgst með einhverjum þar eða umræðuþræði.

Við bjuggum til umræðuþráðinn #Reykir2015 og reynum að tísta myndum og skilaboðum reglulega yfir daginn. Einnig höfum við byrjað að safna tístunum saman í sögu á Storify. Þannig verður til heilleg skráning á því sem sagt var frá á meðan á dvölinni stóð. Þeirri sögu er svo hægt að dreifa víða, í tölvupósti, á heimasíðu og Facebook. Það gefur fleirum færi á að kynnast dvölinni og starfinu bæði í Þelamerkurskóla og skólabúðunum á Reykjum.

Við höfum bara fengið jákvæð viðbrögð frá foreldrum við þessum fréttaflutningi og finnst foreldrum næstum eins og þeir séu þátttakendur í ferðinni. Þetta gefur þeim einnig möguleika á því að ræða við börnin sín um ferðina þegar heim er komið. Það er bæði þeim og börnunum dýrmætt þegar til lengri tíma er litið.

Posted in skólastjórnun | Tagged , , , | Leave a comment