Lært á Word Press

Eitt af verkefnum ársins var að læra betur á Word Press og laga þetta blogg. Í þeim tilgangi skráði ég mig á vefnámskeið hjá Promennt um Word Press sem heitir Vefurinn minn. Námskeiðið er í sex sinnum í mars, þrír þriðjudagar og þrír fimmtudagar frá kl. 18-21. Það eru 10 manns skráðir og átta þeirra mæta á staðinn og ég og önnur erum í fjarfundi í gegnum Skype.

Nú eru fjögur skipti búin og fyrir næstu kennslustund áttum við að skoða þemu eða útlit fyrir síðuna sem stendur til að búa til og einnig að finna út úr því hvar við vildum hýsa hana og setja Word Press upp á síðunni. Með góðri hjálp hafði ég lokið við að ná mér í lén og setja upp Word Press. Lénið er auðvitað http://barabyrja.is/ en þar er ekkert um að vera ennþá því ég er enn að finna mér útlit og að skissa upp skipulag síðunnar.

Síðan skissuð upp

Í morgun skissaði ég upp síðuna og áforma ég að sama innihald og á blogginu en skipuleggja það betur og láta það líta betur út en sú sem hérna er. Fyrst krassaði ég það upp en svo notaði ég tækifærið og reyndi að finna út hvort til væri viðbót í Google fyrir hugarkort eða flæðirit. Þá fann ég grein á Educational Technology and Mobile Learning þar sem fjallað er um fjórar leiðir til að búa til hugarkort og flæðirit á Google Drive. Ég valdi að setja upp MindMup af því ég hafði aldrei heyrt um það áður. En Lucidchart hafði ég séð og fengið kynningu á enda virðist það meira notað ef marka má umfjöllun um það á síðu Google þar sem hægt er að ná sér í viðbætur.

Skissa að skipulagi heimasíðu

Skissan sem gerð var í MindMup

Þema og útlit

Framboð af þemum fyrir heimasíður í WordPress er mikið og það er lítill vandi að gleyma sér við að skoða smartheit og fídusa. Ég byrjaði einfaldlega á því að slá inn “free Word Press themes” og datt þá inn á síðu Colorlib þar sem sagt er frá 50 ókeypis þemum og kostum þeirra. Ég er langt komin að skoða hann og er búin að búa mér til lista yfir þau sem mér líst vel á. Þegar ég hef skoðað mig sadda á Colorlib og víðar áforma ég að nota útilokunaraðferðina við að velja mér þema. Ég vil að þemað sé:

 • Stílhreint og einfalt í útliti
 • Fallegt
 • Nokkuð hefðbundið en samt smart
 • Einfalt í vinnslu

Lært af ferlinu

Til að halda utan um lærdóminn sem er framundan hef ég sett upp lokaðan hóp á Facebook sem heitir Bara byrja.  Þar ég set inn stuttar færslur um ferlið. Þar geta þeir sem hafa áhuga fylgst með ferlinu og vonandi gefið mér ráð um útlit og innihald. Þegar vefurinn verður svo tilbúinn er meiningin að gera hópinn opinberan (e. public) og að þangað verði settir hlekkir með pistlum af vefnum. Svo ætla ég auðvitað að setja saman stutta pistla eins og þennan um það sem ég geri. Meiningin er að allt sem er á þessu bloggi flytjist yfir á nýja vefinn. Hvernig sem það verður nú gert. Það verður gaman að læra það og koma í verk.

Posted in Bara byrja, Starfsþróun | Tagged , | Leave a comment

UT í skólastarfi-hvað þarf til?

Í morgun var menntaspjall á Twitter um nýjustu tækni og vísindi í skólastarfi og var kveikjan að spjallinu sumarbústaðarferð sjö kvenna sem hafa áhuga á málefninu. Þær fóru í bústaðarferðina til að gefa sér tíma til að fikta og leika sér með tækin sem þær höfðu sankað að sér. Einnig nýttu þær tímann til að ræða um notagildi tækjanna og tækninnar í námi og kennslu.

Það hefur margoft og allvíða verið rætt og ritað um innleiðingu nýjunga í skólastarfi. Upplýsingatækni er ekki alveg splunkuný í skólastarfi en það sem er nýtt er allt dótið sem nú er hægt að verða sér út um og nýta til að gera námið fjölbreyttara og raunverulegra en áður, bæði fyrir nemendur og kennara. Og hvort sem við viljum það eða ekki þá er tæknin og dótið sem henni fylgir komið til að vera og hlutdeild þess í lífi og starfi okkar mun ekki minnka í framtíðinni. Það eitt ætti að duga til þess að skólastarf gæfi tækninni meiri tíma og krafta.

En hvað þarf til?

inneiding-ut-i-skolastarfi-4

Eftir að hafa heimsótt spjaldtölvuteymið í Kópavogi og Snælandsskóla í janúar áttaði ég mig á einni leið til að horfa á innleiðingu UT í skólastarfi og gerði mér þá teikninguna hérna fyrir ofan.

Það er ekki nóg að kaupa dótið, það þarf að finna út og gefa aðgang að þeim hugbúnaði sem hentar tækjunum og markmiði starfsins. Svo kemur að því að miðla til kennara því sem búið er að kaupa og græja. Það þarf að kveikja áhuga og skapa skilning á notagildi tækninnar, bæði fyrir nemendur og kennara. Ekki frekar en aðrir, gefa kennarar sér ekki tíma til að skoða nýjungar fyrr en þeir hafa sannfærst um notagildi þeirra. Til þess að það geti gerst þarf bæði peninga og tíma. Og líka nokkuð mikla þolinmæði og útsjónarsemi, því í þessum efnum (eins og öðrum) hentar ekki ein aðferð öllum kennurum. Sumum dugar að fara á eina menntabúð og þá eru þeir komnir í gang. Aðrir þurfa að fá að prófa sjálfir og fá stuðning til þess inni í kennslustundum. Og enn aðrir þurfa að horfa á hjá öðrum til að komast af stað.

Það er reynsla mín að hlutverk skólastjórnenda í þessu ferli, eins og öðru, er að fylgjast vel með bæði innan skólans og utan hans. Það flýtir fyrir þróuninn ef þeir ná að vera fyrirmyndir í notkun tækninnar í eigin starfi. Skólastjórnendur þurfa að styðja við frumkvöðlana í skólanum og síðast en ekki síst að taka fullan þátt í innleiðingu nýjunga í skólastarfinu. Þannig græða allir á innleiðingunni, nemendur, kennarar og stjórnendur sjálfir.

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , | Leave a comment

Smáskonsur

img_2261Þegar legið er í kvefpest verður að gera vel við sig og þess vegna prófaði ég að hræra í glútenlausar smáskonsur.

1 dl glútenlaust haframjöl

2dl All purpose baking flour frá Bobs Red mill

2 tsk lyftiduft

1 tsk Xanthan Gum frá Now

1 msk góð olía

1 -2 egg

Salt milli fingra

Mjólk þar til deigið er eins og þykkur grautur. Ég notaði afgang af haframjólk síðan litli Ívar Helgi var hérna um síðustu helgi.

Ég hitaði pönnu og setti á hana 1 msk af kókosolíu sem ég bætti svo í deigið. Hver skonsa er ein matskeið af deigi og steikt á pönnunni við vægan hita. Snúið við þegar skonsan er farin að þorna örlítið á hliðinni sem snýr upp.

Borið fram með hvaða áleggi sem er og líka hægt að nota þær í staðinn fyrir pönnukökur með beikoninu og egginu.

Verði ykkur að góðu.

Posted in Matarstúss | Tagged , , , | Leave a comment

Stóra upplestrarkeppnin

img_2249

Í dag var upplestrarhátíð Þelamerkurskóla og þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar keppnin var tíu ára gömul skrifaði ég grein í Morgunblaðið um keppnina. Allt í henni á enn við þótt liðin séu ellefu ár síðan.

 

Posted in skólastjórnun | Tagged , | Leave a comment

Foreldrafundir

Fimmti kafli grunnskólalaga fjallar um hlutverk foreldra í skólagöngu barna sinna. Þar eru tíunduð réttindi og skyldur bæði foreldra og skóla um þetta samstarf. Í kaflanum segir að foreldrar:

 • skulu gæta hagsmuna barna sinna,
 • að þeir eigi rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna,
 • þeim sé skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem eru nauðsynlegar fyrir skólastarfið og velferð barnsins
 • skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum
 • skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt

Sjöundi kafli aðalnámskrár hnykkir svo á skyldum skólans í samstarfi heimila og skóla því þar segir að forsenda þess að foreldrar geti axlað þessar skyldur sé virk hlutdeild þeirra og þátttaka í námi barnanna.

adalsnamskra-grunnskola-3-utg-2016-pdf

Til að virkja hlutdeild og þátttöku foreldra hafa skólar um nokkuð margar leiðir að velja og má þar nefna heimanám, tölvupósta, vikupósta, samtalsdaga, opin hús, kynningar að ógleymdum foreldrafundum og því að skólar standa foreldrum alltaf opnir.

Reglulega heyri ég  umræðu um það meðal skólafólks að það þýði ekkert lengur að boða til foreldrafunda, það sé ekki fyrirhafnarinnar virði því það mæti svo fáir og þess vegna þurfi að finna aðrar leiðir til að koma upplýsingum til foreldra og koma á samtali um skólastarfið. Það er mat mitt að hvert af því sem nefnt er hér að ofan hafi hvert sinn tilgang og dugi betur en annað til að þjóna þeim tilgangi og þess vegna megi foreldrafundir ekki leggjast af, heldur megi hugsa þá upp á nýtt.

Skoli og skolaforeldrar cover.aiVið skipulag á foreldrafundum og samtölum hef ég farið eftir ráðleggingum frá Ingibörgu Auðunsdótur sérfræðingi hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Nönnu Kristínu Christiansen verkefnastjóra á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Nanna hefur skrifað bókina Skóli og skólaforeldrar, ný sýn á samstarfið um nemandann. Í þá bók hef ég sótt hagnýtar leiðbeiningar um foreldrafundi eins og fyrirkomulag umræðna. Nanna leggur áherslu á að dagskrá og hópastarf sé markvisst og skilvirkt svo foreldrum finnist tíma þeirra vel varið og að þeir finni sannarlega að þeir geti lagt eitthvað af mörkum til umræðunnar.

Ingibjörg Auðunsdóttir hefur kennt mér að það þarf að setja dagskrá fundanna þannig upp að foreldrar finni að þeir geti treyst skólanum til að vinna að menntun barnanna og lausn þeirra mála sem upp koma. Kynningar skólanna í slíkum fundum þurfa því að innihalda lýsingu á viðfangsefni fundarins og ef um vanda er að ræða þarf að lýsa vandanum og greina vandlega frá stöðunni og því á hverju sú greining er byggð. Ingibjörg leggur áherslu á að skólinn segi líka frá því sem hann hefur þegar gert til að leysa vandann og einnig hvað skólinn hyggst gera í framhaldinu. Að lokum þurfa spurningar hópastarfsins í framhaldi af kynningu skólans að bjóða upp á lausnamiðaðar umræður þar sem reiknað er með því að heimili og skóli vinni saman að lausninni.

Um daginn boðaði Þelamerkurskóli foreldra til fundar í skólanum til að gefa þeim upplýsingar um stöðu skólans eftir að hafa lagt fyrir Lesfimipróf Menntamálastofnunar. Markmið fundarins var einnig að fá foreldra til liðs við skólann í lestrarnámi barnanna. Við skipulag fundarins höfðum við ráðleggingar þeirra Ingibjargar og Nönnu til hliðsjónar.

Boðunin

 1. Fundurinn var fyrst boðaður á Dagskrá skólans en hún barst foreldrum 14 dögum fyrir fundinn.
 2. Tæpri viku fyrir fundinn fengu allir foreldrar tölvupóst með áminningu um fundinn og sagt frá því að von væri á tölvupósti með nákvæmri dagskrá. Foreldarar voru hvattir til að taka kvöldið frá, því reiknað væri með að allir nemendur ættu fulltrúa á fundinum.
 3. Fimm dögum fyrir fundinn var foreldrum sendur tölvupóstur með dagskrá og beiðni um skráningu á fundinn. Jafnframt var sagt frá því að daginn fyrir fundinn yrði hringt  í þá foreldra sem þá hefðu ekki náð að skrá sig á fundinn.
 4. Daginn fyrir fundinn var hringt á þau heimili sem ekki höfðu skráð sig á fundinn. Skólastjórnendur hringdu.
 5. Þremur tímum fyrir fundinn fengu allir foreldrar skólans sms-skilaboð um að kökurnar sem ætti að bjóða uppá á fundinum væru tilbúnar. Skólastjórnendur sendur sms-ið.

Á fundinn mættu 93% foreldra og allir brosandi eftir að hafa fengið “köku-sms”.

Dagskráin

Allir foreldrar sem mættu á fundinn fengu miða með númeri sem sagði til um það í hvaða umræðuhópi þeir yrðu seinna á fundinum. Þá fór enginn fundartími til spillis við að skipta í hópa.

 1. Kynnig á stöðunni og hvernig hún var metin. Skólastjóri kynnti og kennarar sögðu hvað þeir ætluðu að gera í framhaldinu.
 2. Fræðsluerindi um málefni kvöldsins frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.
 3. Kaffi og kökur.
 4. Umræðuhópar þar sem ræddar voru fjórar spurningar. Hver spurning var sett á stórt spjald og fékk hver spurning tvö spjöld. Hverri spurningu var komið fyrir í einni stofu og færðu hóparnir sig á milli stofa til að ræða spurningarnar.
 5. Hver hópur (tveir og tveir saman því hver spurning var með tvö spjöld) kynnti svo það sem stóð á spjaldinu sem var á síðustu stöðunni sem þeir voru á.
 6. Fundi slitið á hárréttum tíma.

Framhaldið

Í framhaldinu verður mikilvægt að foreldrar finni að mæting þeirra og framlag hafi skipt máli. Þess vegna sendi skólinn tölvupóst til allra foreldra skólans daginn eftir fundinn. Í þeim tölvupósti  var þakkað fyrir mætinguna. Einnig var í bréfinu hlekkur á frétt af fundinum og þar voru glærurnar sem farið var yfir á fundinum og einnig samantekt úr umræðum hópanna.

Á fundinum var því lofað að til yrði heildstæð læsisáætlun í skólanum sem tæki einnig mið af umræðum og fræðslu fundarins. Til að slíta ekki þráðinn sem tókst að spinna þetta kvöld er mikivægt að áætlunin verði til sem fyrst og send á hvert heimili og að reglulega fram til vors verði foreldrum sagðar fréttir af framvindu vinnunnar.

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , | Leave a comment

Elska enn QR kóða og líka Google

Á menntabúðum #Eymenntar í Brekkuskóla um daginn var Stella deildarstjóri í Brekkuskóla með menntabúð þar sem hún sýndi hvernig hún býr til hljóðskrár með textum úr könnunum og lesskilningi þannig að nemendur geti unnið sjálfstætt að þessum verkefnum. Hún sagðist vista skrárnar á Sound Cloud og dreifði hlekknum að skránum til nemenda með Qr-kóðum. Ég komst því miður ekki á menntabúðina hennar því ég var sjálf með eina á sama tíma svo ég veit ekki almennilega hvernig hún gerir þetta. En hugmyndin var komin á sinn stað í kollinum og ég vissi að hún kæmi einhvern tímann að góðum notum. Þannig eru nefnilega menntabúðir!

Um þessar mundir svara nemendur könnunum frá Rannsókn og greiningu. Nemendur 5. og 6. bekkjar svara 50 spurninga lista á 18 blaðsíðum. Nokkrir í okkar skóla ráða ekki fyllilega við að lesa svo mikinn texta á þeim tíma sem gefinn er til verksins. Þá mundi ég eftir hugmyndinni hennar Stellu. Þar sem ég hafði ekki hlustað á hana varð ég að finna mér leið til að koma þessari góðu hugmynd í framkvæmd.

audiomemoÉg hef ekki mikla reynslu af hljóðupptökum eða upplestri svo eina ferðina enn var það aðferðin “að fikra sig áfram”. Ég leitaði á netinu að smáforritum fyrir hljóðupptökur og rakst á smáforrit sem heitir AudioMemos og virtist vera frítt. Það er auðvelt að taka upp með því en ég fann fljótlega út að hljóðupptökum úr því er aðeins hægt að dreifa með tölvupósti. En ef ég keypti mér það fyrir 0.99$ þá gat ég dreift því á nokkra vegu, m.a. komið þeim fyrir á Google Drive.
Það er einfalt að læra á forritið, það segir sig nánast sjálft hvernig maður byrjar upptöku, hvernig hún er stöðvuð eða lokið og hvernig henni er svo dreift úr Ipadinum. Þegar ég hafði fundið út úr því þurfti ég bara að finna mér hljóðlátan stað og byrja upplesturinn. Ég las um það bil eina opnu í einu og bjó því til hljóðskrá úr hverri opnu. Úr þessari 18 blaðsíðna könnun urðu átta hljóðskrár. Þær setti ég allar í eina möppu á Google Drive og nefndi þannig að þær raðast þar í rétta röð svo það er auðvelt fyrir nemendur að finna út hvaða blaðsíður hver þeirra inniheldur.

img_2076

Í hljóðveri. Að þessu sinni var kennarastofan hljóðlátasta rýmið.

Til að auðvelda nemendum að nálgast möppuna bjó ég til Qr kóða með slóðinni inn á möppuna. Og þar sem ég hafði nýlega rekist á það á Twitter hvernig auðvelt er að gera Qr kóða fyrir Google slóðir um leið og maður styttir þær á Google URL Shortener notaði ég auðvitað þá aðferð.

Þegar því var lokið prentaði ég út Qr kóðana og prófaði hvort allt virkaði, sem það gerði. Þá var ekkert annað eftir að en fjölfalda Qr kóðana fyrir nemendur og dreifa þeim með könnunum, heyrnatólum og Ipödum. Þannig geta nemendur verið sjálfbjarga þegar þeir svara könnuninni, þökk sé Ipödum, Qr kóðum, Google og upptökuappi sem kostar 100 kall. Svo er bara eftir að sjá hvernig óæfði upplesturinn virkar.

chart

Upplesturinn óæfði sem vonandi dugar nemendum á morgun

Posted in skólastjórnun, Starfsþróun | Tagged , , , , , , , | 1 Comment

Nýja bananabrauðið

mjolÍ jólaleyfinu fór ég í verslunina Kost í Kópavogi til að verða mér úti um glútenlaust bökunarmjöl. Ég hafði séð uppskrift að brauði hjá Guðrúnu Bergmann þar sem það mjöl var notað. Mér lék forvitni á að vita hvernig þetta virkaði. Ég keypti m.a. All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill og sá að í hillunum var til margt sem ég hafði ekki heyrt um áður og myndi vilja kynna mér betur.

Þegar heim var komið leitaði ég á netinu að nothæfum uppskriftum þar sem hægt væri að nota mjölið. Þá komst ég að því að Bob´s Red Mill heldur úti uppskriftavef. Þar fann ég uppskriftir að glútenlausu bananabrauði en í þeim uppskriftum voru líka súkkulaði eða sykur. Fram til þessa hefur mér þótt það óþarfi í bananabrauðum.

Eftir hlaupatúrinn í gær var tilvalið að baka sér bananabrauð og þess vegna dró ég fram bæði uppskriftina hans Bob´s og mína eigin og hrærði í fyrsta glútenlausa bananabrauðið á Mörkinni. Afraksturinn varð svo góður að ég veit að þetta brauð verður bakað oftar.

img_2048

Það var girnilegt bananabrauðið og líktist því sem áður hafði verið bakað og var með glúteni.

3 þroskaðir bananar stappaðir

2 tsk lyftiduft

2 tsk matarsódi

1 tsk kanill

2 bollar (kúfaðir) All Purpose Baking Flour frá Bob’s Red Mill

2 tsk Xanthan Gum frá Now

salt milli fingra

1 dl sólblómafræ

2 egg (þessi voru smá því þau voru úr hænum skólans, þær eru enn að æfa sig í varpinu)

2-3 msk góð matarolía eða kókosolía

1 lúka glútenlaust haframjöl og örlítið til að strá yfir brauðið áður en það fer í ofninn (það fæst nú á tilboði í Nettó)

Bananarnir eru stappaðir og settir í skál og eggjunum er bætt saman við. Því næst er þurrefnunum bætt útí einu af öðru og að lokum er olíunni hrært saman við. Hrært varlega með sleif og sett í brauðform og bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45-50 mínútur.

Borið fram með osti, smjöri og sultu eða marmelaði.

Posted in Að láni frá öðrum, Matarstúss | Tagged , , , , , | Leave a comment